07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í C-deild Alþingistíðinda. (2369)

78. mál, lærði skólinn

Þorsteinn Jónsson:

Þegar deilt er um þetta frv., er í raun og veru deilt um tvær stefnur í skólamálum. Er þetta ekki nýtt hjer á þingi Sömu stefnur, sem ollu því, að mentmn. klofnaði nú, voru þess valdandi, að sama nefnd klofnaði í öðru máli fyrir nokkru síðan, nefnilega málinu um að stofnaður yrði mentaskóli á Akureyri.

Þessar stefnur má aðgreina á þann hátt, að önnur stefnan gengur út á það, að öllum skólum landsins verði komið í eitt samfelt kerfi, þar sem einn skólinn taki við af öðrum. Hin stefnan er sú, að allir skólar landsins greinist í 2 aðalflokka, sem risi upp frá rótum og sjeu algerlega aðskildir. Fylgismenn þeirrar stefnu vilja láta þá, sem ganga eiga lærða veginn, fá sjerstakan undirbúning undir það, þegar í bernsku. Eru ekki nema 2 eða 3 ár síðan að skilja mátti það hjá einum fylgismanni þeirrar stefnu hjer á þingi, að börn þau, er þann veg ættu að ganga, þyrftu í rauninni að læra að stafa öðruvísi en önnur börn. Háttv. meiri hl. nefndarinnar segir í nál. sínu, að fyrirkomulag kenslunnar hljóti að vera með öðrum hætti í gagnfræðadeildinni en í lærdómsdeildinni. Er þetta alveg í samræmi við það, sem þessir menn hafa haldið fram, að alt aðrar kensluaðferðir verði að nota við þá, sem eiga að ganga lærða veginn en við þá, sem ekki eigi að verða lærðir menn. Háttv. þm. Dala. (BJ) komst svo vel að orði hjer í umræðunum um mentaskóla á Akureyri, um það, hvaða aðferðir ætti að nota við hina, sem í gagnfræðaskóla færu. Þeir ættu að læra hundavaðslærdóm og með hundavaðsaðferðum. Þetta er skoðun hans á því, hvaða mentun vígi að veita alþýðu manna. Sú mentun má ekki vera haldgóð, heldur yfirborðsvaðall.

Þá er háttv. meiri hl. að tala um það í nál., að af þessari tvískiftingu skólans í lærdóms- og gagnfræðadeild hljótist tvíverknaður og tímatöf, og að námið verði ekki eins notadrjúgt fyrir það, því að fara verði yfir sömu námsgreinir í báðum deildum. Þetta er nú alls ekki svo hættulegt sem háttv. meiri hl. ætlar. Ef um verulega góðar kensluaðferðir er að ræða, en ekki neinar hundavaðsaðferðir, þá getur verið nauðsynlegt, og er að minsta kosti altaf heppilegt, að fara tvisvar yfir námsgreinarnar. Í fyrra skiftið takmarkaðra, kenna þá undirstöðuatriðin, en svo aftur síðar víðtækara og fyllra.

Háttv. meiri hl. segir einnig, að gagnfræðanámið í tvískiftum skóla geti hæglega freistað nemendanna til að halda áfram í mentastiganum, og skapað þannig of mikinn stúdentafjölda, og mjer skildist á ræðu háttv. frsm. meiri hl. (SSt), að þetta væri það hættulegasta að hans áliti. Þessum mönum finst, að hættulegt sje að hafa of rudda braut fyrir þá nemendur, sem finna, þegar þeir eru búnir að ganga gegnum gagnfræðadeildina, að þeir hafa hæfileika og krafta til þess að halda áfram námi. Því enda þótt nemandinn hafi ekki haft efni á því að fara gegnum allan skólann, þegar hann gekk fyrst inn í hann, þá getur hafa ræst úr því áður en hann er orðinn gagnfræðingur, og þá finnur hann betur, hvað hann má treysta á sjálfan sig. Þarna kemur því skýrt fram, sem oftar, sú skoðun háttv. meiri hl., að þegar í bernsku skuli vera búið að skera úr því, hvort barnið eigi að ganga lærða veginn eða ekki. Og það eru foreldrarnir, sem þessa ákvörðun eiga að taka, því sjaldgæft mun vera, að börnin finni sjálf svo snemma köllun hjá sjer um það, hvaða braut þau eigi að ganga. En eins og jeg tók fram, þá fara þeir, sem sjálfir eiga að velja lífsgötu sína, frekar í gagnfræðaskóla fyrst, til þess að fá reynslu, og þar sem það eru oft menn, sem erfitt eiga um aðstöðu, sem þá leið fara, þá geta þeir oft ekki ákveðið fyrirfram, hvort þeir hafi efni á því að fara gegnum allan skólann. Það eru þessir menn, sem háttv. flm. frv. vilja bægja frá lærðu skólunum.

Háttv. meiri hl. segir, að verði frv. að lögum, muni ríkissjóði sparast fje, jafnvel svo hundruðum þúsunda króna skifti. Þetta eru sömu stóru tölurnar, sem hampað var gegn mentaskóla á Norðurlandi. En þeir hafa gleymt að tilfæra rökin fyrir þessu, nú sem þá. Að vísu hjelt háttv. frsm. meiri hl. því fram í ræðu sinni, að sparast mundu 12–14 kennarar, við það að gera mentaskólann að latínuskóla, en í öðru orðinu talaði hann um að stofna þyrfti stóran gagnfræðaskóla, enda stendur það einnig í nál. meiri hl. Ætli það yrðu ekki fleiri kennarar, sem þyrfti með við þann skóla, en þeir, sem spöruðust við latínuskólann? Þessi skóli, sem á að vera „unglinga- og gagnfræðaskóli“, mundi verða mjög sóttur, og yrðu inntökuskilyrðin við hann að öllum líkindum enn þá vægari en nú er við mentaskólann. Mætti búast við því, að kennarar við hann yrðu ekki færri en 24–28, eða helmingi fleiri en sparast kynni á hinum skólanum, og þar sem þar að auki þyrfti nýtt skólahús og ný kensluáhöld, yrði kostnaðurinn tvöfaldur við það, sem nú er.

Þá talar háttv. meiri hl. um það í nál., að andlegur þroski og þekking stúdenta muni vera minni nú en undir gamla fyrirkomulaginu. Jeg skal ekki deila um þetta, því jeg er því ekki nógu vel kunnugur. En sje svo, að það sje rjett, þá ætla jeg að það stafi engu síður af því, að nú koma menn yfirleitt miklu yngri í skóla en áður, og virðist það færast í vöxt, að börn sjeu send í skólann.

Þá er það hræðslan við stúdentafjölgunina, sem mjög gerir vart við sig í herbúðum háttv. meiri hl., og vill hann skjóta loku fyrir það. Háttv. frsm. meiri hl. (SSt) sagði, að þeir yrðu meira og minna atvinnulausir og að þeir yrðu ekki færir um að vinna líkamlega vinnu. En jeg vil spyrja: er tiltölulega fleira af atvinnulausum lærðum mönnum en ólærðum ? Og ef svo væri, sem ekki mun þó vera, að lærðir menn legðust frekar í leti og ómensku, þá er eitthvað athugavert við þá skóla, sem slík áhrif hafa á nemendur sína, að þeir vilja ekki starfa til þess að bjarga sjer. Hann talaði um í þessu sambandi, að þörf væri á að hafa strangari inntökuskilyrði. En það má eins herða á þeim með öðrum námsgreinum en latínu, t. d. íslensku. Þá yrði máske síður kvartað undan því, hve þekking og kunnátta stúdenta í móðurmálinu væri af skornum skamti.

Þá hrygðist háttv. frsm. meiri hl. (SSt) yfir því, hve mikil afturför hefði orðið frá því í gamla daga, er hver prestur gat talað latínu við útlendinga, er til landsins komu. En þó að latínan yrði nú aukin svo í skólanum, að hver stúdent væri fær um að tala á því máli, og svo kæmu hingað stúdentar frá öðrum löndum, yrðu þeir stúdentar þá færir um tala við þessa lærðu Íslendinga? Það hefir verið sú stefna í nágrannalöndunum undanfarið, að minsta kosti á Norðurlöndum, að draga úr latínunáminu. Og ekki væri líklegt, að erlendar þjóðir færu að hlaupa upp til handa og fóta og innleiða latínuna hjá sjer aftur, þótt það spyrðist út fyrir pollinn, að við hefðum aukið latínukensluna, en ljetum aðrar þarfari námsgreinir sitja á hakanum.

Háttv. frsm. meiri hl. (SSt) spurði, hvernig hægt mundi að bæta gagnfræðamentun í Reykjavík, án mikils aukakostnaðar. Jeg álít, að það sje ekki hægt. Ef skólanum yrði skift, mundi kostnaður aukast að miklum mun, eins og jeg gat áður um. Þegar nýr gagnfræðaskóli yrði stofnaður, mundu verða gerðar háar kröfur til hans, og þingið mundi láta undan þeim kröfum. Þá talaði háttv. frsm. meiri hl. (SSt) um það, að ef skólanum yrði skift, mundi fækka svo nemendum, að koma mætti upp heimavistum í skólanum. En nú er húsið alt of lítið og er það ein ástæðan fyrir því, að heppilegt er að koma upp mentaskóla á Akureyri, að við það mundi sparast kostnaður á viðbótarbyggingu hjer, en á Akureyri er nógu stórt hús fyrir mentaskóla þar. En þessi sami háttv. þm. (SSt) greiddi atkv. fyrir skömmu síðan með rökstuddri dagskrá, þar sem skorað var á stjórnina, meðal annars, að athuga, hvort ekki væri tiltækilegt að byggja sem allra fyrst viðbótarbyggingu við mentaskólann hjer.

Þessir háttv. þm. (SSt og BJ) vilja leggja mikla áherslu á það, hversu mikil nauðsyn sje á því, að þyngja námsgreinir við skólann. Jeg skal nú ekki mæla neitt á móti því, álít skaðlaust þó þær sjeu þyngdar að nokkru, en ef á að þyngja kenslu í einhverri námsgrein, þá verður það að vera einhver grein, sem verulegt notagildi er að. Æfi mannsins er ekki það löng, að ekki sje hægt að eyða of miklu af henni í nám, sem að litlum raunhæfum notum kemur síðar. Mjer þykir nú engin furða, þótt háttv. þm. Dala (BJ) sje ant um að aukin sje kenslan í forntungunum, því það eru námsgreinir, sem hann er kennari í. En mig undrar, ef þingið verður honum sammála í þessu.

Ef endilega þarf að finna upp einhverja námsgrein, sem er nógu þung, enda þótt hún komi ekki að neinu haldi í lífinu, því þá ekki að taka upp t. d. kínversku ? Jeg ætla að hún muni reynast enn þá erfiðari en bæði latína og gríska. Þar að auki er hún mál 1/4 hluta alls mannkynsins. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, að um leið og ein námsgrein er þyngd að mun, þá tapast um leið tími frá hinum námsgreinunum, og þær námsgreinir, sem mest mundu líða við það, ef latínan væri aukin, mundu verða náttúrufræðin og nýju málin. Og álit mitt er það, að hagkvæmara sje oss að auka fremur kenslu í þeim námsgreinum, sem síðar koma nemandanum að beinum notum, heldur en þeim, sem aðeins eru ætlaðar til þess að efla skilning þeirra. Þær nothæfu þroska líka hæfileikana.

Háttv. þm. Dala. (BJ) gat þess í ræðu sinni, að landsmönnum mundi vera að fara aftur í lærdómslegu tilliti, því nú væru aðeins fáir prestar, er kent gætu latínu. Þetta sannar ekkert annað en afturför latínukunnáttunnar. Gömlu prestarnir, sem latínuna kunnu, kunnu aftur á móti ekkert í mörgum nytsamlegum fræðum, sem eru efst á baugi, og nauðsynlegt er að kunna.

Hvað er það svo, sem hefir knúið þessa menn til að flytja þetta frv? Ekki eru það óskir þjóðarinnar, því að engar raddir hafa heyrst um það, hvorki á þingmálafundum nje annarsstaðar. Eru það þá kennarar skólans? Fyrir tveim árum, þegar rætt var hjer á þingi um mentaskólafyrirkomulagið, komu ritgerðir til þingsins frá þremur kennurum mentaskólans, sem lengi höfðu kent við hann, þar sem þeir mótmæltu því, að þessi breyting yrði gerð á skólanum. Höfðu þó sumir þeirra verið kennarar við skólann undir gamla fyrirkomulaginu.

Eru það nemendur mentaskólans, sem óska breytinga? Jeg hefi ekki heyrt neina þeirra óska eftir þeim. En jeg hefi heyrt raddir, svo tugum skiftir, mæla á móti þeim; og líklega eru engir af núverandi mentaskólanemendum þeim fylgjandi. Eru þá líkur til, að þessar breytingar haldist lengi, þó þær verði samþyktar? Jeg segi nei; og jeg byggi það á því, að flestir yngri stúdentar og skólapiltar eru þeim mótfallnir; og þegar sumir þeirra eru komnir í þau sæti, sem við erum nú í, þá mundi aftur verða skift um stefnu.

Það er ekki þjóðin, sem vill þessar breytingar, það eru ekki kennarar skólans eða nemendur. Breytingarnar eru ekki runnar frá þeirri kynslóð, sem er á framsóknarskeiði. Það eru aðeins nokkrir gamlir latínu- og grískunemendur úr gamla skólanum, sem gera þetta af rækt til hans og ást á gamla kenslufyrirkomulaginu. Það er sama tilfinning eins og ríkir hjá rosknum mönnum, að þeim finst alt það gamla betra en það sem nú er. Þetta er glegsta einkenni þeirrar kynslóðar, sem er að fara aftur og álitur að öll nýbreytni leiði þjóðina norður og niður í glötunina.

Verði þessi breyting gerð á mentaskólanum, þá heftir hún að vísu aðstreymi í skólann. En hverjir verða heftir? Ekki Reykvíkingar, heldur verða það einkum sveitapiltar. Því að þeir fara margir fyrst í gagnfræðaskólana til þess að reyna sjálfa sig, áður en þeir ákveða að halda lengra. Þeir verða auðvitað ekki útilokaðir frá skólanum, en meiri tálmanir settar í veg fyrir þá en áður.

Það yrðu mest Reykvíkingar, sem sæktu skólann, og börn þeirra manna, sem sjálfir geta tekið ákvörðun um, hvað börnin skuli læra, og kostað þau; en miklu síður þeir nemendur, sem ryðja sjer braut af sjálfsdáðum.

En svo er líka annað í sambandi við þetta, sem kom fram í umræðum um stofnun mentaskóla Norðurlands. Með þessari breytingu væri slitið sambandi mentaskólans í Reykjavík við gagnfræðaskólann á Akureyri.

Það er sjálfsagt umbótamál að hafa tvo mentaskóla en ekki stóra; nú hefir það verið drepið.

En þá vona jeg, að ekki verði margir með þessari breytingu, sem heldur enn lengra inn á þá braut að gera gagnfræðingum að norðan ómögulegt að sækja mentaskólann og spillir yfirleitt fyrir öllum öðrum en Reykvíkingum.

Það má segja um suma af þeim mönnum, sem fylgjast að þessu máli, og þó sjerstaklega um háttv. fhn. frv. (BJ), að einkunnarorð hans ætti að vera: „Ísland fyrir Reykjavík“.