16.03.1923
Efri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í C-deild Alþingistíðinda. (2382)

72. mál, sameign ríkisjóðs og bæjarsjóðs Vestmannaeyja á Vestmannaeyjajörðum

Flm. (Karl Einarsson):

Þetta frv. er nær samhlj. frv., sem jeg flutti í fyrra, en það dagaði þá uppi í nefnd. Jeg hafði ekkert verulegt við það að athuga, því frv. kom svo seint fram þá. Nú er frv. að mestu óbreytt, og þær smábreytingar, sem jeg hefi gert á því, eru í samræmi við það, sem bæjarstjórn Vestmannaeyja hefir lagt til málanna.

Allir vita, að ríkissjóður á þessar jarðir, lóðir og lendur að mestu leyti, en þær hafa ekki gefið honum þær tekjur, sem sanngjarnt er, því leiguskilmálar eru gamlir og eftirgjaldið miðað við þáverandi gildi peninga. Nokkrar dýrustu lóðirnar hafa verið leigðar á erfðafestu, og það mjög dýrmætar lóðir, fyrir fast, mjög lágt árgjald um aldur og æfi. Þessir samningar eru sumir mjög gamlir. Jeg á hjer aðallega við lóðirnar hjá höfninni, sem bæjarstjórn er í raun og veru nauðsynlegt að hafa einhver umráð yfir, því að lagt hefir verið í mikinn kostnað við hafnarbygginguna, svo sem kunnugt er. Nú átti að vísu að leigja á erfðafestu, og varð því ekki við þetta ráðið samkvæmt lögum, en nú á að miða eftirgjaldið við verðmæti lóðanna á hverjum 10 ára fresti og leigja til ákveðins tíma. Og þegar eftirgjaldið hækkar, er ekki ósanngjarnt, að Vestmannaeyjar fái eitthvað af þeirri hækkun, því að hún er til orðin fyrir atorku Eyjabúa að mestu leyti. Þetta fyrirkomulag er rjettlátara og sanngjarnara, bæði fyrir ríkissjóð og Vestmannaeyjar.

Andvirði það, sem til er tekið í frv., er ekki einskorðað, og jeg vona að samkomulag geti náðst um það. Að svo mæltu ætla jeg ekki að ræða málið frekar, en vænti þess, að það verði látið ganga til allsherjarnefndar, og er jeg fús til að gefa henni allar þær upplýsingar, sem jeg er fær um, bæði frá umboðinu og stjórninni.