27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í C-deild Alþingistíðinda. (2391)

56. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Nál. ber með sjer, að allshn. er samdóma um að leggja það til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar til frekara undirbúnings. Nefndin er því meðmælt, að almanaksárið sje gert að reikningsári hreppanna. En hún álítur hins vegar, að ófært sje að lögbjóða þetta, án þess að hafa fyrst borið það undir hreppsnefndir landsins. Nefndin er í vafa um, hvort hægt er að koma þessu við, eins og stendur, í einum tveimur sýslum landsins, vegna þess, hve nær sýslufundir eru haldnir þar. Þyrfti þá að færa þann tíma til, sem sýslufundir þessir eru haldnir á, og ætti þá fyrst að bera það undir hlutaðeigendur. Getur það ekki sakað mikið, þótt frestur verði á framgangi þessa frv. í eitt ár. Er þess og einnig þörf vegna þess, að um leið þyrfti að taka til endurskoðunar stóra kafla úr sveitarstjórnarlögunum.

Jeg verð þá fyrir hönd allshn. að vænta þess, að hæstv. stjórn, svo framarlega sem ekkert alvarlegt kemur fram, sem mælir á móti, leggi fyrir næsta þing frv., sem gengur í þessa átt.