27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (2394)

56. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þótt svo sje, að sýslufundir sjeu nú um garð gengnir í sumum sýslum, er ekkert því til fyrirstöðu, að hægt sje að bera þetta mál undir sýslunefndir í þeim sýslum. Það má fela oddvitum þeirra, á þann hátt, sem þeir telja heppilegastan.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hjelt að hann hefði orðið of seinn með brtt. sínar til nefndarinnar. En það var ekki, ef nefndin hefði aðeins getað fallist á þær. Nefndin hafði tillögur háttv. þm. (SvÓ) til meðferðar, og ákvað úrslitin samkv. því, að hún gat ekki fallist á að hafa mismunandi reikningsár í hinum ýmsu hreppum sömu sýslu. Enda gæti þetta vel orðið til sundurþykkis milli hreppanna. Ekki náðist heldur samþykki nefndarinnar um tillögur háttv. flm. (SSt), um að láta hina einstöku hreppa fá að ráða þessu sjálfa.

Jeg sje ekki ástæðu til að ætla, að þetta mál geti ekki orðið undirbúið fyrir þing; öll svör og tillögur í þessu máli ættu að geta verið komin til stjórnarinnar í lok septembermánaðar nú í haust, og það ætti að nægja.