17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í C-deild Alþingistíðinda. (2414)

68. mál, gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) vildi mæla frv. þessu bót, og get jeg vel skilið, að hann vilji koma á þessum gerðardómi; hitt þykir mjer eigi eins víst, að verkamenn eða yfir höfuð nokkrir hinna frjálslyndari manna vilji vera með í því. Mintist hann á og mótmælti því, sem jeg hafði sagt um ráðherra og dómara, og sagði, að úrskurðir þeirra hefðu fallið verkamönnum í vil; getur vel verið, að hann líti svo á, en vart munu verkamenn líta svo á alment. Það má og vel vera, að í þessari síðustu deilu —prentaraverkfallinu — hafi hæstv. atvrh. (KIJ) litið rjett á málið, en það sannar ekki neitt, því það er þá alveg einstætt. Eða hvers vegna skyldu verkamenn annars alstaðar berjast á móti þessu, ef það væri ekki alment álit þeirra og reynsla, að gerðardómur væri þeim í óhag.

Háttv. þm. Dala. (BJ) var með stóryrði og ókvæðisorð; brá hann mjer meðal annars um visvítandi ósannindi. Er þetta vandi hans og kemur engum á óvart, en jeg hygg að hrópyrði hans bæti á engan hátt fyrir þessu frv. Var hann og með ýmsa spádóma, sem honum er mjög lagið, en jeg er óhræddur fyrir þeim, eða að það hafi nokkur áhrif á kjósendur mína. Hann hefir áður verið með spádóma; má þar minna á skýrsluna frægu um Íslandsbanka, sem þm. (BJ) fjekk stórfje fyrir, að sögn. En reynslan hefir nú orðið þann veg, að jeg hygg að fáir muni verða til þess að kaupa nýja spádóma af þessum hv. þm.