04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (2421)

68. mál, gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Jón Baldvinsson:

Háttv. allshn. hefir þótt sæma að svæfa svo mörg mál, að hún hefði vel getað verið þekt fyrir að láta þetta mál líka hvíla sig þar. Frv. þetta var talsvert rætt við 1. umr., og var þó þá ekki minst á orðalag þess, sem hv. flm. (BJ) hefir viðurkent með brtt. sínum að væri ekki sem heppilegast. En þó að þær bætur sjeu gerðar, þá held jeg að þrátt fyrir það sje frv. ekki sem heppilegast orðað, ef það yrði svo að lögum, sem jeg raunar vænti að ekki verði. Frv. þetta byggist í eðli sínu á sterkum samtökum vinnusala og vinnuþega. En langt er frá, að þau sjeu orðin svo almenn hjer á landi, að hægt sje að koma því við, sem 2. gr. gerir ráð fyrir. Nokkuð mikið umstang er líka við það, ef hvert fjelag á að hafa fasta nefnd til að semja um kaupgjaldið. Þetta er raunar ekki stórt atriði, en það sýnir þó ljóslega, að hv. flm. (BJ) er harla ókunnugur þeim málum, sem hjer ræðir um. Hann virðist byggja eingöngu á erlendum fyrirmyndum, en tekur ekki tillit til þess, hversu allar aðstæður eru ólíkar hjer. Maður hefir ekki leyfi til að efast um góðan tilgang með frv. Hv. flm. (BJ) gerir eflaust ráð fyrir því, að með þessu megi koma í veg fyrir verkföll og deilur, en sjer ekki, að það getur aðeins orðið til þess að auka á stjettadeilurnar og sundrungina. Þessi dómstig, sem hann gerir ráð fyrir, eru þannig löguð, að ákvæði frv. um þau, jafnvel þó brtt. yrðu samþyktar, geta tæplega staðist, þegar til framkvæmdanna kæmi. Tíminn, sem settur er til dómsins, er hálfur mánuður, frá fyrsta til síðasta dómstigs, og er það sýnilegt, að sá tími er alt of naumur. Það er alveg óhugsandi, að málum, sem sótt eru og varin af kappi, geti orðið lokið á einum hálfum mánuði. Fyrsta dómstigi er þannig háttað, að þar skipar stjórnin oddamann, sem dæmi ásamt 2 öðrum, er vinnusali og vinnuþegi tilnefna, og á sá dómur aðeins að taka þrjá daga. Jeg get ekki hugsað mjer, að þessi stjórnskipaði oddamaður verði svo fljótur að átta sig á málunum, nema afstaða hans sje þá fyrirfram ákveðin af handahófi. Sama gildir um öll dómstigin. Jeg þykist vita, að í flestum tilfellum verði það oddamaður, sem kveði upp endanlegan úrskurð, og vilji hann rannsaka málið samviskusamlega, þá mun hann fljótt komast að raun um, að tíminn er alt of naumur. Alt þetta bendir til þess, að hv. flm. (BJ) hefir ekki skilið, hvernig slík mál ganga til.

Þetta er nú um ákvæði frv. og brtt. En svo er eftir að vita, hvernig fara myndi, ef lögin kæmust til framkvæmda og farið yrði að vinna undir þeim. Jeg fæ varla skilið, að þeir sjeu margir, sem geri sjer vonir um, að þó gerðardómur kæmist á, þá sje þar með komið í veg fyrir deilur milli verkafólks og vinnuveitenda. Það eru svo afarmargar leiðir opnar fyrir þá, sem óánægðir eru með úrskurðinn, að skjóta sjer undan honum og fá kröfum sínum framgengt á annan hátt. T. d. hafa verið samþykt lög, sem banna starfsmönnum ríkisins að gera verkfall. Nú eru, eins og kunnugt er, sterk samtök milli þeirra. Og svo var það árið 1919, að þeir komu með kröfur, og raunar að öllu leyti rjettmætar kröfur um launabætur. En hvers vegna gerðu þeir það? Ekki máttu þeir gera verkfall, þó kröfum þeirra væri eigi sint. Hvað lá þá bak við ? Það, að allir embættismenn hefðu sagt af sjer og enginn tekið við starfi þeirra. Því fleiri en embættismenn voru með í þessum samtökum; það voru kandidatar líka, sem ekki hefðu fengist til að taka við embættunum, ef launabótunum hefði ekki verið sint. Á þennan hátt gátu þeir skotið sjer undan lögunum, sem bönnuðu þeim að gera verkfall, en fundu aðferð, sem verkaði eins. Alveg eins gætu aðrir starfandi menn farið að. Sjómenn gætu t. d. sagt við útgerðarmennina: Við ráðum okkur ekki! Það er ekki heldur verkfall, en það verkar eins. Eins gætu t. d. útgerðarmenn gert. Þeir gætu stöðvað skipin til að lækka kaupið. Þetta sýnir nægilega, að ákvæðin eru óheppileg og að ekki er hægt að koma í veg fyrir, að farið sje í kringum lögin og mótstaða sje veitt.

Enn er eitt, sem í frv. vantar, sem sje ákvæði um það, á hvern hátt dómurinn eigi að starfa. Það er til dæmis nauðsynlegt, að dómendur rannsaki, hvað lágmarkskaup verkamanna eigi að vera. Það er t. d. ekki nóg, að verkamenn fái sæmilegt kaup í 1–2 mánuði af árinu, því þeir þurfa að lifa alla daga ársins. Það er næsta algengt, að enga vinnu sje að hafa frá því í október og fram í miðjan apríl, en þá þarf líka kaupið að vera svo hátt, að það endist þeim til viðurværis, þann tíma, sem þeir neyðast til að ganga atvinnulausir.

Enn er það sterk ástæða á móti frv., að það skuli koma fram einmitt nú, og gæti það bent til þess, hvernig það eigi að verka. Mjer skilst, að eins og ástæðurnar eru nú, þá muni kaup fara lækkandi, og að flestar kröfur muni ganga í þá átt. Ef því lögin verða samþykt, þá má ganga að því sem gefnu, að þeim verði fremur beitt til þess að færa niður kaupið heldur en að hækka það. Eða hvers vegna kom ekki fram frv. um þetta árið 1916? Þá voru það verkamennirnir, sem urðu að sækja á.

Við 1. umr. þessa máls var vitnað í það, að slíkir gerðardómar hefðu verið t ettir upp í minsta kosti tveimur stöðum erlendis, og er annar þeirra í Noregi. Þar kom hann nýlega til endursamþyktar í Stórþinginu, en var feldur. Það sama er að segja frá Ástralíu; þar mun hann vera því sem næst numinn úr gildi. Sýnir það, að þeir hafa alstaðar gefist illa, og sjerstaklega er það eftirtektarvert, að verkamenn hafa alstaðar verið gerðadómum mótfallnir og þótt það sýnt, að þeir hafi gengið á sinn hluta. Og svo er það líka með verkamenn hjer, svo sem áskoranir þær, allfjölmennar, frá verkalýðsfjelögunum hjer í bæ og einstökum mönnum, sýna ljóslegast. Auk þess hafa komið samskonar áskoranir frá fjelögum utan af landi. Jeg verð því að telja, að það sje harla frekleg móðgun við verkamenn, ef hið háa Alþingi samþykkir þetta.

Háttv. alshn. leggur nú til, að málið nái ekki fram að ganga að þessu sinni, og vill vísa því til hæstv. stjórnar, til athugunar og undirbúnings. Jeg hafði nú ekki hugsað mjer að greiða atkvæði með frv. til stjórnarinnar. Að forminu til er það að fella málið, en það má ef til vill álítast, að með þessari aðferð sje þó nokkur lífsneisti í frv. Greiði jeg því atkvæði á móti frv. eins og það er, öllum liðum þess, ásamt framkomnum brtt.