04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í C-deild Alþingistíðinda. (2424)

68. mál, gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Bjarni Jónsson:

Fyrst þykir mjer það undarlegt, hvernig meðferð nefndarinnar hefir verið á málinu, að hún taldi það vanta undirbúning. Starf nefndarinnar átti vitanlega að vera í því fólgið að undirbúa það betur. Mín aðalhugsun er sú, hvernig setja skuli saman dóminn. Hitt er ætlunarverk nefndarinnar, að koma með það, sem nánar þurfti til skýringar. Hv. 2. þm. Reykv. (JB) deildi á mig og kvað mig hafa bygt á of sterkum samtökum vinnuveitenda og vinnuþega. En þetta er ekki rjett. Þar sem engin samtök eru, þar eru engin verkföll; en hjer er hægt að sýna honum fram á nóg dæmi um verkföll til þess, að hann geti látið sannfærast um þetta. Það er ekki til neins fyrir hann að reyna að þvæla það. Svo vildi sami hv. þm. (JB) segja, að frv. yki deilur, en það er líka fjarri sanni. Hann talar um, að tíminn sje of stuttur. Það er rangt. Alstaðar, þar sem þess gerist þörf, hygg jeg, að tíminn mundi reynast nægur, uns til úrskurðar kæmi, þar til málið væri látið ganga gegnum öll stigin. Hann talaði um, að það væru ýmsar leiðir til að skjóta sjer undan dómi; en menn myndu ekki gjarnan hafa slík brögð í frammi. Menn yrðu fegnir, þegar málið yrði útkljáð, og sennilega hefir hvor aðili jafnan eitthvað til sín máls. Hv. þm. (JB) talaði um, að oddamennirnir hefðu ekki nægan tíma til að gera sjer grein fyrir málinu, en þetta er bara sagt út í bláinn. Því að allar upplýsingar í málinu liggja fyrir þeim, og hver meðalmaður þyrfti ekki meira en í hæsta lagi 2 daga til að setja sig inn í það, sem skjöl þau fjölluðu um. Jeg býst við, að þingmenn, sem sitja hjer nætur og daga og ræða um vandamál þjóðarinnar, ættu að vera færir um að vera slíkir oddamenn. Jeg efast ekki um, að þeir, sem geta samþykt 153 greinar í flóknu þjóðarmáli á örskömmum tíma, ættu að vera færir um að setja sig inn í deiluefni sjómanna og útgerðarmanna á tveim dögum. Hv. þm. (JB) talaði um, að vanalegt væri að setja lágmark á kaupgjald verkamanna. Það er hvorki þeim sjálfum holt nje vinsælt. Jeg hefi aðeins haft hag verkamanna og engra annara fyrir augum, því að lágmark á kaupi er þeim sjálfum fyrir verstu. Jeg ætla mjer ekki að deila mjög á þennan hv. þm. (JB), því að jeg býst ekki við að svara honum neinu. Hann hefir gefið það í skyn, að jeg hafi ekki getað samið frv. sjálfur, en verið svo fenginn til að bera það fram. Jeg hefði gaman af, að hann sýndi mjer þessa aðstoðarmenn mína, og gæti sagt, að jeg hefði orð fyrir að láta aðra tyggja í mig. Það, sem fyrir mjer vakti, var að vinna gagn atvinnuvegunum.

Jeg geri ekki mikið úr þessari áskorun frá 550 verkamönnum, því að það er ekki mikill hluti af verkamönnum hjer í bæ, hvað þá heldur af öllu landinu. Þó hefir sjálfsagt verið unnið ósleitilega við að smala saman undirskriftunum. Með tilliti til þess er þetta undarlega magur listi. Það er auðvitað af því, að allur þorri verkamanna hefir skilið, að frv. er þeim til verndar. Hugsum okkur, að hv. 2. þm. Reykv. (JB) rjeði og að það yrði drepið. Hugsum oss enn fremur, að öll skip yrðu sett upp, og af því myndi leiða atvinnuleysi, en óbein afleiðing gerðardómsins yrði sú, að slíkt kæmi aldrei fyrir. Ef frv. yrði samþykt og yrði að lögum, dytti engum í hug að setja upp skip sín, því að hann gæti það ekki, nema með því að baka sjer harðari útreið í næsta dómsmáli, er starfsmönnum hans yrði dæmt hærra kaup fyrir þann skaða, er hann hefði gert þeim að raunarlausu.

Eins og menn vita, er það oft meira kapp en peningaatriði, sem veldur deilunum milli verkalýðs og vinnuveitenda, og mundi dómurinn því jafnan koma að góðum notum og verða þó einkum verkamönnum til verndar.