20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Þorsteinn Jónsson:

Þegar mál þetta var rætt hjer í hv. deild í sambandi við fyrirspurn hv. þm. V.-Sk. (LH), upplýsti hæstv. atvrh. (KJJ) í svari sínu, að löggildingarstofan hefði borið sig, tekjurnar af þessari stofnun væru eins miklar og útgjöldin, væri því enginn kostnaður fyrir ríkið að halda henni við. Jeg efast ekki um, að svo muni vera. En þó að kostnaður sje enginn af henni fyrir ríkið, þá kemur þó kostnaðurinn á landsmenn. Það er enginn vandi fyrir þessa stofnun að hafa svo miklar tekjur, að hún baki ekki ríkissjóði útgjöld, þar sem hún hefir ein rjett til þess að flytja inn og gera við öll mælitæki og vogaráhöld, og ræður sjálf verðlaginu. Þá er skiljanlegt, að hún sje ekki byrði á ríkissjóði. En hins vegar er það ljóst, að þetta er skattur á landsmönnum. Það eru ekki þeir, sem kaupa áhöldin eða láta gera við þau, sem greiða þetta gjald, heldur almenningur, því að kaupmenn og kaupfjelög leggja það aftur á vöruna.

Það má segja, að þetta gjald sje ekki mjög mikið, en það er þó nokkuð, og ábyggilega skattur, sem má missa sig. Mjer er kunnugt um, að mjög nákvæmlega hefir verið farið í að framfylgja lögum þessum. Þó að ekki hafi verið meira að sumum áhöldum heldur en brotinn nagli, sem hver lagtækur maður — og jafnvel líka ólagtækur — hefði getað gert við, varð að senda þau til Reykjavíkur, og kostaði viðgerð og flutningur oft á tíðum jafnmikið og áhöldin ný. Mig furðar ekki, þó að vogar og mælitækjum hafi verið talið mjög ábótavant í skýrslu þeirri, er hæstv. atvrh. (KJJ) las upp um daginn, er hann svaraði fyrirspurninni, þar sem hver smágalli var talinn með. Vogir voru dæmdar ónothæfar fyrir smávegis annmarka, þó að þær vægju ekki skakt, og lóð, sem flutt voru inn eftir að löggildingarstofan tók til starfa, var neitað að löggilda, þó að þau væru góð og rjett í alla staði, og varð því að fleygja þeim.

Það hefir verið sagt til stuðnings löggildingarstofunni, að með henni væri meiri trygging fyrir því, að vog og mælir væri rjett. Jeg leyfi mjer að efast stórlega um þetta og hygg, að erfitt muni að sanna það. Á milli skoðana og eftirlits af hálfu löggildingarstofunnar líða minst 3 ár, og ef kaupmenn vilja nota röng mælitæki, geta þeir það vitanlega þau 3 ár, sem ekki er skoðað hjá þeim. Eiginlega er miklu öruggara að leggja þetta undir umsjón lögreglustjóra, sem geta haft eftirlit með áhöldunum hve nær sem þeim sýnist.

Þegar lögin um löggildingarstofuna voru samþykt hjer á þingi, var þetta eftirlit talið svo vandasamt, að fela þyrfti það sjerfræðingi. Jeg hygg, að þetta hafi aðallega verið notað til að koma lögunum í gegn, en vandinn sje ekki meiri en að hver meðalmaður geti sjeð, hvort tækin sjeu rjett eða ekki.

Þessi lög eru einhver hin allra óvinsælustu, sem ungað hefir verið út hjer á þingi á síðustu árum. Þetta eitt væri að vísu ekki næg ástæða til að fella þau úr gildi, ef annað mælti með þeim. En þegar alt bendir á, að þjóðin missi einskis í, þó að löggildingarstofan verði lögð niður, vona jeg að hv. deild taki vel undir frv. og lofi því að sigla áfram.