20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Það var ekki alveg rjett hermt hjá síðasta ræðumanni (ÞorstJ), að jeg hafi haldið því fram, að nú væri svo komið, að löggildingarstofan bæri sig. Jeg sagði ekkert um það og lagði engan dóm á það. Jeg las einungis upp tölur, er forstjóri löggildingarstofunnar hafði látið mjer í tje, en fór ekki í neinn samanburð. Fyrirspurnin gaf ekkert tilefni til þess, og jeg áleit það henni óviðkomandi. Það er þó enn vitlausara, sem jeg sá hermt eftir mjer í blaði einu, að löggildingarstofan hafi gefið svo og svo mörg þúsund krónur í tekjur. Jeg sagði ekki eitt orð á þá leið. Hitt dró jeg fram, til þess að sýna, að hún hefði gert eitthvert gagn, hve mikið hefði lagast um vogir og mælitæki við þessar 2 skoðanir, sem fram hafa farið. Jeg áleit mjer það skylt, enda var það tekið svo greinilega fram í skýrslu forstjórans, að hann ætlaðist sýnilega til, að það kæmi fram í þinginu.

Jeg get ekki sjeð neitt því til fyrirstöðu að fela lögreglustjórum þetta eftirlit, þar sem góðu skipulagi hefir verið komið á mæli- og vogartæki á síðustu árum. Stofnunin er alt of dýr. En þó er annað athugavert í þessu máli, sem jeg vil drepa strax á. Forstjóri löggildingarstofunnar hefir fyrir um 2 árum verið hálfhræddur um, að önnurhvor stofnunin, er hann veitir forstöðu, löggildingarstofan eða veðurathugunarstofan, yrði lögð niður. í brjefi, dags. 7, maí 1921, spyr hann stjórnina um þetta, og biður hana að tryggja sjer sömu launakjör sem hagstofustjóra; kveðst hann ella mundu neyðast til að leita sjer annarar atvinnu. Þáverandi stjórn svaraði með brjefi, þar sem þessu var lofað fullkomlega. Þessi plögg mun jeg fá væntanlegri nefnd í hendur, ef þau kynnu að geta breytt áliti hennar að einhverju leyti í þessu máli.