20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í C-deild Alþingistíðinda. (2430)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Jón Baldvinsson:

Jeg er yfirleitt meðmæltur ríkisrekstri á sem flestum sviðum, en ef jeg sje einhverja óþarfa stofnun, vil jeg auðvitað leggja hana niður. En stofnun þá, sem ræðir um, tel jeg ekki rjett að afnema. Það getur verið, að þeir, sem því fylgja, hafi rjett fyrir sjer að sumu leyti um þann þunga skatt, er þeir telja þjóðina greiða löggildingarstofunni. Vitanlega borgar þjóðin einhvern skatt til hennar. En hver skyldi hafa borgað þann skatt, sem röng mæli- og vogartæki hafa bakað þjóðinni? Ef þau hafa verið svo röng, sem eftirlitið hefir sýnt, hefir sá skattur ekki verið svo mjög lítill. Má vel athuga þetta um leið og rætt er um að leggja stofnunina niður.

Jeg er ekki mjög hrifinn af eftirliti lögreglustjóranna í þessu efni. Vjer höfum svo margskonar reynslu um það eftirlit á ýmsum sviðum. Hæstv. atvrh. (KIJ) var heldur á því, að leggja mætti löggildingarstofuna niður, þar sem þessi mál öll væru nú komin í svo gott horf. En þá vaknar sú spurning, hvort ekki muni alt færast aftur í gamla horfið, þegar eftirlitið minkar. Þá kemur aftur þessi skattur af röngum mæli- og vogartækjum, sem jeg hygg að sje engu minni en það, sem vjer nú gjöldum til löggildingarstofunnar.