20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Bjarni Jónsson:

Við erum í því horninu nú, jeg og hv. 2. þm. Reykv. (JB), að við erum sammála. Hann hefir að mestu leyti tekið af mjer fyrirhöfnina, og get jeg því verið stuttorður. Jeg vil endurtaka það, sem hann sagði, að ekki þarf miklu að muna á vog eða mæli til þess að á almenning komi margfaldur skattur á við það, sem löggildingarstofan kostar. Hve miklu skyldi t. d. þurfa að muna á mjólkurmáli hjer í Reykjavík, er hvert heimili kaupir nokkra potta daglega. Eða hvort mundi það lengi að safnast saman á ull eða fiski, ef mjög tíðkuðust rangar vogir? Jeg get fullvissað menn um það, að það væri svo mikil upphæð, að menn mundi sundla, ef nokkur væri fær um að reikna hana saman. Og hvaða trygging er fyrir rjettum mæli og vog í þjóðfjelagi, sem hefir enga stofnun til rannsóknar og eftirlits með því. Þá vantar þá tryggingu, sem almenningur á heimtingu á. Og þó að lögreglustjórar eigi að hafa þetta eftirlit, hvaða tæki eiga þeir þá að hafa? Eiga þeir að hafa vogir hjeðan, eða fá nýjar frá Frakklandi (Atvrh. KIJ: Það hafa menn oft fengið). Jeg veit, að menn fengu áður vogir frá Danmörku. En þegar Íslendingar fóru að verða sjálfstæð þjóð, vildu þeir eiga þetta undir sjálfum sjer, en ekki undir öðrum, þó að öðrum væri að vísu vel trúandi í þessu efni.

Annað er það, að menn hafa eðlilega kvartað undan hinu háa verði á mælitækjum. En þess ber að gæta, að birgðir löggildingarstofunnar voru keyptar á þeim tíma, þegar alt var í hæstu verði, og þar sem stofnunin átti að bera sig, varð að selja tækin svo dýrt. En þar sem ekki þarf í framtíðinni að kaupa svo dýra hluti sem þá, mun verð á þeim lækka. Og þegar viðskifti og verðlag færist til rjetts lags, munu menn lítið finna til þessa gjalds og ekki kvarta undan því. En því er nú undan þessu kvartað, að þetta er innlendur skattur, en ekki útlendur, því að erlenda skatta gjalda illir fúslega og glaðir.