20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Þorsteinn Jónsson:

Það hafa þegar heyrst 2 raddir til að andmæla þessu frv. Hv. 2. þm. Reykv. (JB) bar upp þá spurningu, hver borgaði skatt þann, sem stafaði af röngum vogum. Við skulum gera ráð fyrir, að þetta hafi komið fyrir áður en löggildingarstofan var sett á stofn. (JB: Það er sannanlegt). Þá mun þetta hafa verið upp og niður, stundum hallast á kaupanda, stundum á seljanda. Það má halda því fram með fullum rjetti, að engin trygging sje fyrir rjettri vog og mæli, þó að þessi stofnun haldi áfram. Áhöld þessi geta skemst á 3 árum, og þeir, sem vilja nota rangar vogir, geta hæglega skotið þeim inn í skúmaskot meðan eftirlitsmaðurinn er á ferðinni og tekið þær fram, þegar hann er farinn. Það má segja, að viðskifamennirnir gætu gætt að því, að slíkum prettum væri ekki beitt. En þeir eiga jafnauðvelt með að gæta að, hvort vogir sjeu rjettar, þó að ekki sje stimpill löggildingarstofunnar á þeim. Það er einnig tilætlun okkar flutningsmanna, að lögreglustjórar stimpli áhöldin. Jeg er þess fullviss, að lögreglustjórarnir eru jafnfærir til þess að rannsaka tæki þessi eins og þeir menn, sem löggildingarstofan sendir út. Auðvitað má telja forstjórann best færan allra til rannsóknar á vogar- og mælitækjum, en hann ferðast ekki um sjálfur til að líta eftir tækjunum, heldur sendir hann hina og þessa til eftirlitsins. Sýslumenn gætu alt eins vel haft þetta eftirlit með höndum, og jafnvel hreppsjórar, án þess að jeg sje að niðra eftirlitsmönnum löggildingarstofunnar.

Annars má, eins og jeg tók fram áður, ganga of langt í hótfyndni að eyðileggja vogartæki. Mjer er kunnugt um, að eftirlitsmaður hefir kastað kvörðum, sem honum þótti ekki líta nógu vel út, eða voru smíðaðir af lagtækum mönnum, en þó eins rjettir og kvarðar löggildingarstofunnar.

Jeg sagði ekki að þetta væri mikill skattur á þjóðinni, heldur að það væri óþarfur skattur. Svo lengi má halda áfram að leggja óþarfa skatta á þjóðina, þótt smáir sjeu hver um sig, að þeir verði alltilfinnanlegir.

Hv. þm. Dala (BJ) kvað menn mundu sundla, ef reiknað væri saman það tjón, er almenningur biði árlega af röngum mæli- og vogaráhöldum, og tók til dæmis mjólkurmál í Reykjavík. Það getur verið, að svo nákvæmlega sje mæld mjólk í Reykjavík. En þar sem jeg þekki til er hún ekki svo nákvæmlega mæld, en svo mikið látið framyfir, að örugt sje, að kaupandinn skaðist ekki. Enda held jeg að mjólkurmælar sjeu ekki löggiltir af lögildingarstofunni.

Menn hafa talað á móti frv. eins og ekkert eftirlit yrði í þessum efnum, ef það verður samþykt. Það er ekki rjett, því að lögreglustjórum er falið þetta eftirlit. En um leið kemur það undir stjórnarráðið eins og öll önnur mál, er lögreglustjórar hafa með höndum. Ef menn teldu slælegt eftirlit hjá einhverjum lögreglustjóra, liggur beint við að kvarta til stjórnarráðsins, og gæti það sent sjerstakan eftirlitsmann, þegar svo bæri undir.