20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í C-deild Alþingistíðinda. (2437)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Þorsteinn Jónsson:

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) taldi, að óvild þjóðarinar gegn stofnuninni væri sökum þess, að hún hefði ekki þolað leiðrjettinguna á tækjunum. En þetta er ekki rjett. Getur sú ástæða ekki verið hjá öllum almenningi, og jeg held ekki hjá neinum, heldur hefir ástæðan verið þessi óþarfi kostnaður, sem af stofnuninni hefir leitt. Tækin hafa orðið að vera svo dýr, til þess að stofnunin geti borið sig.

Hann talaði einnig um hinn mikla árangur, sem orðið hefði af fyrstu skoðuninni. Mjer kemur ekki til hugar að neita því, að eitthvert gagn hafi orðið að eftirlitinu, en hins vegar held jeg, að ekki verði fullkomlega á því bygt, þótt mismunur milli fyrstu og annarar skoðunar yrði svo mikill sem skýrslan segir, því að ekki er ólíklegt, að menn hafi ekki sýnt öll vogar- og mælitæki sín við aðra skoðunina, ef þeir hafa t. d. ekki sent þau löggildingarstofunni til viðgerðar.

Jeg er sammála hv. þm. Ak. (MK) um það, að nauðsynlegt sje að málið verði vel athugað í nefnd. En viðvíkjandi því, sem hann sagði, að hætt væri við, að traust útlendinga minkaði á áreiðanleik mælis og vogar hjer á landi, ef eftirlitið yrði af handahófi, og að jafnframt myndi verða neitað að taka á móti heilum skipsförmum, vil jeg spyrja: hefir slíkt komið áður fyrir, áður en hjer var löggildingarstofa ? Jeg held ekki. En auk þessa er ekki verið að tala um að afnema eftirlitið, heldur auka það, því að lögreglustjórarnir geta framkvæmt það oftar heldur en löggildingarstofan gerir. En þá mótbáru get jeg ekki skilið, að lögreglustjórum sje ekki trúandi fyrir þessu. Er þeim þá trúandi fyrir öðrum vandasömum störfum, sem þeim eru fengin í hendur ? Jeg held, að hræðsla hv. þm. Ak. (MK) sje á engu bygð; hins vegar þykir okkur flm. gott, ef bent verður á eitthvað til að gera eftirlitið sem tryggast á þeim grundvelli, sem við viljum byggja frv. á. En kostnaðarsama stofnun til þessa viljum við ekki.