20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Bjarni Jónsson:

Það má segja um hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að ekki bregður mær vana sínum, þegar um sjálfstæðismál þjóðar vorrar er að ræða. Alt, sem að því hnígur, kallar þessi hv. þm. sjálfstæðisfordild eða gorgeir. Kippi jeg mjer ekki upp við þetta, en hitt þykir mjer leiðinlegra, að hann skuli nú vera tekinn að vega að Jóni Magnússyni, jafnhandgenginn og hann annars er honum. En því segi jeg þetta, að Jón Magnússon taldi sjálfsagt, að þetta nýja fyrirkomulag yrði upp tekið. Annars er dálítið einkennilegt að heyra menn tala um það sem óþekt, að eftirlitinu hafi verið áfátt, áður en starfinn kom, og misjafnlega vegið. Hjelt jeg, að menn hefðu einhverntíma heyrt getið um búhöldana, er seldu kjöt til fátæklinga á útmánuðum. Var sagt, að sú reislan, sem þeir vógu út með, hafi ekki verið tiltakanlega hörð, en svo höfðu þeir aðra, er þeir tóku á móti, sem var, að sögn, talsvert harðari. Held jeg að það sje engin sjálfstæðisfordild, þótt þessar reislur hyrfi.

Seinlegt held jeg að það yrði líka, að senda reislur til Danmerkur, sem hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) mundi sennilega telja það eina örugga. Það er þessi ósjálfstæðisfordild, sem drottinn hefir gefið þessum þm. (JÞ) í vöggugjöf. Honum finst, að þetta land geti ekki bjargað sjer í neinu, nema alt sje sótt til útlanda annað en verkfræðingar. Á því hefir honum aldrei fundist þörf, svo mjer sje kunnugt, að fá þá. Rjettast teldi hann líklega að senda verkfræðinga út með reislurnar, og að svo fengju lögreglustjórarnir verkfræðingaliðið til að líta eftir því, að þær væru í lagi.

En hverjum yrði þetta þá til góðs, ef lögð yrði niður löggildingarstofan ? — cui bono? Vitanlega eigi þeim, sem versla, því hún á að vera til þess, að almenningur geti verið viss um að kaupa rjett og selja rjett, en hjer er farið fram á að svifta burt öllu eftirliti í þá átt. Þetta er ein af þeim stofnunum, sem allra síst ætti að hverfa. Hitt getur verið annað mál, að hún sje of dýr í rekstri, og skal jeg játa það til hægðar þeim, sem óánægðir eru, en sjálfsagt ætti að vera ljett að kippa því í lag. Stafar þetta mikið af því, að hún varð að kaupa alt á óþægilegum tímum, og hefir stofnkostnaðurinn orðið ef til vill fullmikill í fyrstu, þó jeg lofi eigi svo mjög frv. þetta, álít jeg samt eigi nauðsynlegt, að það verði svo bráðdrepið, að það fái eigi að fara til nefndar, en mjer fanst það eigi rjett, að eigi væri haldið uppi svörum fyrir jafnþarfa stofnun sem þessi er.