20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í C-deild Alþingistíðinda. (2439)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Jón Þorláksson:

Mjer finst sjálfsagt að taka til athugunar þau atriði, er hv. þm. Ak. (MK) benti á, en jeg hygg að hann fari vilt í því, hvað það sje, sem tryggir það, að útlendir kaupendur fái rjetta vigt. Jeg hygg, að það sjeu hinir lögskipuðu vigtarmenn, en ekki þessi stefnun eða hin löggiltu tæki hennar. Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) komst að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti að banna alt smiði hjer innanlands á þessum tækjum, ef frv. þetta yrði að lögum. Jeg hygg þetta stafi af því, að þingmaðurinn hefir eigi kynt sjer málið nógu vel, hvorki frv. þetta, nje hin eldri eða yngri lög, er hjer að lúta. Þau tæki, sem nú eru notuð hjer innanlands, eru ekki löggilt og verða það heldur ekki, nema þau eigi að notast við verslanir. Hjer er ekki annað löggilt en verslunarvogir, lögin ákveða ekki um aðrar vogir, og þetta frv. fjallar aðeins um verslunarvogir og mælitæki. Sama er að segja um það, sem hv. þm. Dala. (RJ) sagði um hörðu reislurnar í harðindunum o. s. frv. Þær eru ekki löggildingarskyldar. Um sjálfstæðisrembing hans ætla jeg ekki að fjölyrða hjer, því það kemur litt þessu máli við; en heldur þótti mjer þá verða lítið úr kappanum, er hann brá Jóni Magnússyni sem skildi fyrir sig. Mjer er sama, hvaða menn standa að málum, því jeg fer ekki í manngreinarálit um málefni, en beðið get jeg vel með að skattyrðast við hv. þm. Dala. (RJ) um þessi efni, þangað til hann tekur sína árlegu jóðsótt út af 7. gr. sambandslaganna.