20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í C-deild Alþingistíðinda. (2440)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. þm. Ak. (MK) kveið því, að útlendir kaupendur mundu eigi taka gilda vigt og mál á vörum hjeðan, ef löggildingarstofan hyrfi. Jeg býst nú ekki við, að þeir viti mikið um tilveru hennar hjer, og því vart sakna hennar. Eina og aðaltryggingin, sem við höfum, eru vigtar- og matsmennirnir. Það getur eðlilega komið fyrir, að kvartað verði undan vigt á pökkuðum fiski eða annari vöru, sem rýrnar í flutningi, eins og hæstv. atvrh. (KIJ) drap á, að komið hefðu frá Spáni. Mjer er og kunnugt, enda mun það og viðast vera, að vigtar- og matsmenn prófa vigtirnar áður en þær eru notaðar, og eru þeir áreiðanlega eins vel til þess fallnir og sendimenn löggildingarstofunnar.

Háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) var og hræddur um að banna þyrfti smíði á vogar- og mælitækjum innanlands. Mjer sýnist, að lögreglustjórar geti löggilt slík áhöld eins og verið hefir.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði, álít jeg að hann ætti að geta talið sýslumenn og lögreglustjóra eins þjóðlega og nýta til löggildingarstarfsins og löggildingarstofuna, því þeir hafa áreiðanlega eins góð tæki eða gætu haft til þessa, eins og sú stofnun. Mjer er kunnugt um eitt áhald, sem kom frá Noregi og löggildingarstofan taldi óhæft, en lögreglustjóri gat sannað að var rjett. Enn fremur veit jeg um 2 vigtir frá Ísafirði, sem voru sendar suður til aðgerðar, og það kostaði milli 40–50 kr., auk flutningskostnaðar, viðgerðin, en hefði mátt gera við þær á Ísafirði fyrir margfalt lægra verð, að þær vógu rangt, er þær komu aftur að sunnan. Nú var spurningin: átti að senda þær suður aftur eða gera við þær á Ísafirði og láta lögreglustjórann sjá um, að þær yrðu löggiltar á ný? Hvort heldur sem úr yrði ráðið, var þetta algerður óþarfakostnaður.