20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í C-deild Alþingistíðinda. (2442)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Jakob Möller:

Háttv. samþm. minn (JÞ) var að efast um, að jeg hefði lesið lögin eða yfir höfuð fylgst vel með í málinu. Jeg er ekki viss um, hvort hann hefði leyft sjer að segja þetta, ef hann hefði fylgst með í ræðu háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), en sá hv. þm. sló því fram, að löggildingarstofan hefði tvenn störf með höndum, og jeg var að svara því. Hann hefir heldur ekki tekið eftir ræðu minni. Jeg benti á, að í landinu væru, hefðu verið og mundu verða smíðuð vogar- og mælitæki, en ef á að fara að flytja inn útlend, löggilt tæki, er þessi innlendi iðnaður útilokaður og yrði líklega að banna hann. Hann segir, að aðeins verði notaðar löggiltar vogir og tæki við verslanir, en viða innanlands er hitt notað, sem jeg áðan drap á, og mætti jafnvel búast við, að innlendu tækin yrðu notuð meira við verslanir framvegis en gert hefir verið.

Jeg álít það hæpna rökfærslu hjá hv. þm. Ísaf. (JAJ), að lögreglustjórar sjeu að sjálfsögðu færari en löggildingarstofan til að leiðrjetta vafasöm mæli- og vogartæki. Jeg hygg, að hið gagnstæða sje sönnu nær, og dæmi hans í þessu efni sanni lítið. Jeg verð því að álíta, að löggildingarstofan tryggi þetta mál allra best. En slíkar misfellur, sem hv. þm. Ísaf. (JAJ) gat um, geta ávalt komið fyrir, og skal því alls ekki neitað, að löggildingarstofunni geti skjátlast, en þá þyrfti ekki síður að gera ráð fyrir, að slíkt gæti hent lögreglustjórana.