04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Jón Baldvinsson:

Jeg hreyfði andmælum gegn frv. þessu við 1. umr. Og jeg hefi heldur ekki getað sannfærst við meðferð nefndarinnar á málinu, að vinningur yrði að því að láta það ganga fram. Jeg held að vinningurinn verði ekki eins mikill og menn vænta. Löggildingarstofan hefir nú látið fara eina umferð, og gert ítarlegar endurbætur. En vegna þess, hve mikið ólag var á mæli- og Vogartækjum, hefir þessi óánægja myndast, sem lýsir sjer í því, að frv. þetta er fram komið. Óánægjan myndi verða minni, þegar frá liði og eftirlitið yrði ódýrara fyrir eigendur tækjanna. í stað löggildingarstofunnar, sem á að leggjast niður, á að fela eftirlitið lögreglustjórum og hreppstjórum. Þeir geta að vísu verið góðir á sínu sviði, en jeg efast um, að þeir hafi eins gott vit á þessu eins og sendimenn löggildingarstofunnar, sem hafa fengið þekkingu og æfingu. Jeg efast um að þeir verði eins fljótir að sjá gallana.

Þá er annað atriði, sem mjer þykir athugavert. Það er bannið gegn því að kaupa vogar- og mælitæki frá öðrum löndum en þeim, sem hafa sömu vog og mál og lögleitt er hjer, eða hafa látið löggilda þau í þeim löndum. Ef t. d. einhver vill kaupa þau í Ameríku, þá verður hann að senda þau til Danmerkur til löggildingar. Þetta er óhafandi. Það væri þá nær að leggja það undir lögreglustjórana að löggilda þau tæki, fyrst þeir trúa þeim svona vel.

Mjer er þetta ekkert kappsmál. En ekki má gleyma því, að menn verða að borga viðgerðirnar eftir sem áður, eftir taksta, er stjórnarráðið setur um það. Þá álít jeg enn fremur, að viðgerðirnar verði betri hjá löggildingarstofunni, sem hefir orðið mikla æfingu í því efni og góð tæki, heldur en verða myndi hingað og þangað úti um land.

Hv. flm. frv. (ÞorstJ) hjelt, að ástandið yrði ekki verra, heldur betra. Það hefir nú sannast, að löggildingarstofan hefir kipt í lag því, sem áfátt var í þessu efni. En jeg er hræddur um, að aftur sækti í sama horf. Hreppstjórar og lögreglustjórar hafa mikið að starfa og hugsa um önnur málefni, og væri meðferð þessa máls áreiðanlega hefur trygð hjá löggildingarstofunni en hjá þeim.