04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í C-deild Alþingistíðinda. (2454)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Jón Þorláksson:

Eftirlitið með því, að rjett sje mælt og selt í þessu landi, er nú, eins og áður, í höndum lögreglustjóranna en ekki löggildingarstofunnar. En eftirlitið með tækjunum er hjá löggildingarstofunni. Til þess að framkvæma það, hefir hún eftirlitsmann á ferðalagi um landið, og skýrir forstjórinn svo frá, að til þess að líta eftir öllum tækjum einu sinni á hverjum þrem árum, þurfi að minsta kosti 2 menn í tvö árin og einn mann þriðja árið. Þurfa þeir að hafa hesta til ferðalagsins út um land, og verður það því ærið kostnaðarsamt. Þessir eftirlitsmenn geta hvergi komið mönnum að óvörum, það frjettist ávalt til þeirra frá einu kauptúninu til annars áður en þeir koma þar. Mega því allir sjá, að eftirlitið er alls ekki gott, eins og það er nú, þótt þessar eftirlitsferðir sjeu farnar á þriggja ára fresti, og álít jeg, að það verði miklu tryggara samkvæmt þessu frv., ef það verður að lögum.

Þó að tækin, sem keypt eru frá útlöndum, eigi að vera löggilt þar, er alls ekki verið að seilast yfir á löggjafarsvið annara þjóða, heldur er þetta aðeins bann á innflutningi ólöggiltra tækja. Er það í sjálfu sjer ekkert meira en hvert annað innflutningsbann, sem á sjer stað um svo margar vörur, og þekkist viðar en hjer. En í þessu er mikil trygging fólgin. Víða erlendis eru verksmiðjur, sem smíða tæki, sem alls ekki eru nógu vönduð til þess að vera hæf til löggildingar, og fást því eigi löggilt þar, sem þau eru smíðuð. Þetta er því trygging gegn því, að hingað verði flutt tæki, sem ekki eru nægilega vönduð til þess að vera nothæf til löggildingar, ella mætti búast við, að inn í landið yrði flutt tæki, sem væru mjög ljeleg, og menn gætu samt leiðst til að láta löggilda þau, af því annara væri eigi völ.