04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í C-deild Alþingistíðinda. (2456)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Lárus Helgason:

Það eru aðeins örfá orð til hv. 2. þm. Reykv. (JB). Hann gat þess, að óánægjan gegn löggildingarstofunni væri aðallega af því, að það hefði þurft að laga svo mikið af mælitækjum og vogaráhöldum. Þetta ætti þá að benda til þess, að allir notendur hafi viljað halda áfram að nota rangar vogir og mæla. Þessu verð jeg algerlega að mótmæla. Óánægjan er sprottin af því, að eftirlitið hefir verið framkvæmt á þann hátt, að auðsjeð hefir verið, að slíkt hlaut að verða alt of dýrt landsmönnum. Allir sjá, hversu erfitt og dýrt það hefir orðið mönnum að senda og fá send frá og til Reykjavíkur tæki. Þetta hefir orðið alt of dýrt, og allir vita, að það er almenningur, sem borgar. Þó ríkissjóður hafi ekki kostnað af þessu, legst hann á verslanirnar, og þær verða svo að koma honum yfir á almenning. í Danmörku er löggildingarstofa, sem framkvæmir alt, sem löggilding mælitækjanna og voganna við kemur. En þar er eftirlitið í höndum lögreglustjóranna, og þar sem þetta þykir betra, að hafa það svo þar, sem samgöngur eru svo góðar og landið svo þjettbygt, ætti það að geta eins átt við hjer, þar sem við höfum lögreglustjóra dreifða út um alt okkar stóra og strjálbyggða land. Tel jeg því rjett að taka þessa stefnu upp, sem frv. fer fram á.