16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Jónsson):

Jeg ætla ekki að svo komnu að lengja umræðurnar, en ætla aðeins að skýra frá því, að þessi brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) var borin undir allsherjarnefnd, og lagði hún eindregið til, að brtt. yrði feld. Liggja til þess margar ástæður. Eins og háttv. flm. brtt. sjálfur rjettilega tók fram, er það á okkar valdi að breyta til með þetta, ef við viljum. En brtt. háttv. 1. þm. S.-M. gerir oss á engan hátt lægra fyrir með það. ef hún næði fram að ganga. Miklu heldur hið gagnstæða, eins og jeg mun sýna síðar. Það er ekki satt hjá háttv. þm., að sömu ástæður sjeu fyrir hendi nú eins og í fyrra, er heimildarlögin voru samþykt. Það er ekki sambærilegt: þá var beinlínis svo um samið við Spán, að við þyrftum ekki að leggja fullnaðarsamþykki á málið fyr en eftir ár, en nú horfir öðruvísi við. Nú verður þetta að gerast, til þess að samningum vorum sje fullnægt ég þeir geti haldist og vjer orðið aðnjótandi þeirra hlunninda. er í móti eiga að koma af hendi Spánverja. Háttv. þm. (SvÓ) segist ekki hafa sannfærst af rökum þeim, er borin hafa verið fram, um nauðsyn þessarar undanþágu. Jeg ætla ekki að fara að taka upp aftur þau rök öll eða að fara að rifja upp allar þær umræður, sem um þetta hafa farið fram, og býst við, að aðrir háttv. þm. telji það og lítt nauðsynlegt. Skal jeg nú víkja að því, sem jeg sagði, að breytingartill. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) færi í raun rjettri í öfuga átt við það, sem hann ætlast til. Nú fara nýjar kosningar í hönd, og gæti þá hugsast, að hið nýkjörna þing vildi breyta um aðferð í þessu máli og standa gegn kröfu Spánverja og nema undanþáguna úr gildi. Mætti þá líta svo á, að ef brtt. háttv. þm. (SvÓ) væri samþykt, þá hefði þingið bundið hendur sínar í þessu máli til 1927. Þó að aðrar þjóðir færi nú að veita oss að málum, eins og háttv. þm. gerir ráð fyrir, kemur aftur að því sama, því að þá væri ekki hægt að hafast neitt að fyr en á árinu 1927, nema með því að ganga beint á svig við vilja þessa þings. Að öðru leyti geri jeg því miður ekki ráð fyrir, að þessu verði auðið að breyta svo bráðlega, en ef til þess kæmi, er miklu verra að vera búinn að binda sig svo eins og felst í brtt. háttv. 1. þm. S.-M. Hún getur því aldrei hjálpað okkur neitt, því að hún gefur ekkert, sem við ekki eigum án hennar, en tekur að nokkru af okkur ákvörðunarrjettinn um 4 ár.