09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Frsm. (Jón Magnússon) [framh]:

Jeg mintist á málið við hæstv. atvrh. (KIJ), á þeim grundvelli, sem nefndin hafði hugsað sjer. Var hann því meðmæltur og samþykkur, að hæstv. stjórn endurskoðaði lög þessi, og að hún athugaði jafnframt óskir þær, er fram kæmu hjer á þinginu. Hann kvað hv. stjórn geta sjeð um, að meðan málið væri á döfinni, yrði kostnaðinum haldið sem mest niðri.

Talað hefir verið um að láta steypa lóð innanlands, því að það mundi verða mun hægra og miklu ódýrara. Nefndin hyggur, að óhætt sje að leggja til, að málinu verði vísað til hv. stjórnar í fullu trausti þess, að hv. stjórn taki það til ítarlegrar rannsóknar. Hæstv. atvrh. (KIJ) leyfði mjer að lýsa yfir því fyrir sína hönd, að hann áliti þetta rjettu leiðina með þetta mál.