16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi setið hjá og hlustað á umræður í þessu máli á báðum þingunum. Í fyrra og nú, og þess vegna er mjer ef til vill heimilt að fara nokkrum almennum orðum um þetta mál og láta í ljós álit mitt um það. (Forseti: Það er heimilt).

Óðar en lögin um aðflutningsbann höfðu verið samþykt við almenna atkvæðagreiðslu um land alt, vildu margir fá þeim breytt þegar í stað, og hafa menn oftlega vitnað til þess, að meiri hluti sá, sem fenginn væri með þeim, væri of lítill, er mál þetta hefði verið gert að kappsmáli þegar í upphafi. En jeg hefi ávalt verið því meðmæltur, að reynsla væri fengin fyrir lögunum, og hefði því viljað fá fulla raun á þeim áður en þeim hefði þurft að breyta. Reyndar vildi jeg helst, að þjóðinni gæfist á ný tækifæri til að láta uppi álit sitt um þau með almennri atkvæðagreiðslu, er fleiri hafa nú hlotið atkvæðisrjett en áður, og auk þess ættu allir 16 eða 18 ára gamlir menn að eiga atkvæðisrjett um þetta, því að alþingiskjósendur hafa eigi ríkari rjett en aðrir til þess að ákveða, hvað leyft sje að eta eða drekka.

Á þeim tíma, sem liðinn er síðan bannlögin voru sett þessu ríki, hefir fengist fullvissa fyrir því, að þau hafa allmjög verið brotin. Vilja sumir því um kenna, að eftirlit hafi verið slælegt, en hitt mun sönnu nær, að eigi verði náð hjer fullnægjandi eftirliti, sökum staðhátta, og engin leið til þess að verjast ólöglegum innflutningi vína. Er mönnum og kunnugt, að kauplæðingar voru hjer á landi áður bannlögin voru sett, og þurfti vart að búast við því, að bannlögin yrðu undantekning í því efni.

Jeg hafði fyrir löngu hugsað mjer, að ríkið skyldi taka að sjer alla vínverslun innanlands, en áður en jeg var farinn að reyna til að koma þeirri hugsun í framkvæmd, kom annað inn á milli. Sunnan frá Spáni kemur krafa um það að breyta löggjöfinni um innflutning og sölu vína, ef Íslendingar eigi að sæta þeim kjörum þar um toll á saltfiski, er aðrar þjóðir hafi best. Eigi kom þetta þó af því, að Spánverjum væri í huga, að vjer myndum kaupa vín af þeim, svo að verslun þeirra drægi nokkuð. Hitt var tilefnið, að þeir áttu í stímabraki við aðra stærri þjóð um sama efni, og drógumst vjer á þann hátt inn í málið. Var þá eigi nema um tvent að velja: fá háan toll og erfið kjör á Spáni eða breyta löggjöfinni um innflutning vína að öðrum kosti. Hefði hið fyrra haft að afleiðingum kollvörpun útgerðar hjer á landi, en af því hefði hlotist hrun banka og kollvörpun ríkisins og að hagur alls almennings hefði orðið hinn bágasti. Er einkennilegt, að nokkur háttv. þingmanna skyldi vera svo skammsýnn að greiða atkvæði gegn því, að undanþágan væri leyfð, og er þó undarlegra, að það skyldi einmitt vera fulltrúi þeirra manna, er hafa atvinnu af útgerð og fiskveiðum og harðast hefðu orðið úti allra landsmanna, hefði vilji hans náð fram að ganga. Vita allir, að útgerðin hefir nú um skeið verið rekin með tapi, og hefði hún síst mátt við 10–12 miljón króna skaða aukreitis. Þessi háttv. alþm. mun og einungis hafa verið að gera sig merkilegan á kostnað okkar hinna, sem vorum það forsjálir að stofna eigi landi og þjóð í bersýnilegan voða.

Þá hafa og heyrst allháværar raddir um það, að með því að ganga að kröfum Spánverja væri sjálfstæði landsins skert. Er hæft í þessu að nokkru, en þó mjög ýkt og að sumu leyti rangt. Þegar tveir aðiljar semja, verða báðir að vægja að nokkru, eigi trygt samkomulag að nást, og þessir Spánarsamningar eru eigi annað en tollsamningar milli þjóða, og eru sömu lögum háðir.

Þá verð jeg og í sambandi við brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að láta í ljós undrun mína yfir því, að þeir menn, er sárast þykir að beygja sig í þessu máli og samþykkja undanþáguna, skuli vilja endurnýja samningana, helst árlega, og rifja með því upp sársaukann. Er það að mínu viti óþarfa nýtni á harma þessara manna. Öllum ætti að vera ljóst, að enda þótt leyfður sje innflutningur um óákveðinn tíma, þá hefir þó Alþingi í hendi sjer valdið til þess að breyta því, ef aðstæður breytast svo, að fært þyki að leggja út í slíkt. Þar er þó þess að gæta, að þótt nýr markaður fáist fyrir fiskinn, þá tekur þó ávalt nokkra tugi ára að koma honum í svo fast horf, að leggjandi sje út í það að segja skilið við þann markað, er best hefir reynst. Háttv. þingmönnum er öllum kunnugt um þetta, ekki síður en mjer. Enda þótt vjer sjeum voldugir, þegar vjer erum komnir í þingsætið, þá breytum vjer þó eigi gildandi viðskiftalögmálum.

Þá kem jeg að hinni hlið málsins, en það er hvernig fara skal með þau vín, er inn eru flutt. Jeg er þá fyrst á þeirri skoðun, að vínverslunina beri að reka með sem minstum kostnaði fyrir landið. Álít jeg fært að fela þeirri verslun, er nú fer með tóbaks- og steinolíuverslun hjer á landi, að taka einnig við vínversluninni. Mundi það geta orðið ríkinu að kostnaðarlitlu, því enda þótt vínverslunin bætist við, ætti ekki að þurfa að bæta við verslunina svo miklu sem einum skrifara.

Þá ætti að haga vínversluninni þannig, að einungis væru keypt inn holl og góð og ljúffeng náttúruvín, sem engan geta skaðað. Ætti það að geta verið alveg á valdi verslunarinnar. Gegn þessu mundu menn ef til vill færa það, að þá kæmu kauplæðingarnir og flyttu inn sterk vín á ólöglegan hátt í skjóli hinna vínanna. En við því er hægt að gera, og þó aðeins á einn hátt. Sektir og refsingar gagna lítt gegn slíkum mönnum. Eina vopnið, sem bítur, er það að selja ríkisvínin svo ódýr, að kauplæðingar hafi ekki lengur hag af því að flytja inn sterka og vonda drykki; mun þá verslun þeirra falla um koll af sjálfu sjer. Þó getur farið svo, að einstaka maður, sem er orðinn sterkum drykkjum vanur, kaupi þá eftir sem áður, en minni brögð verða þó sjálfsagt að því, og vart svo mikil, að ólöglegur innflutningur borgi sig, þegar við bætist áhætta með sektir. Flestir hinna yngri myndu eigi líta við öðru en náttúruvínum, og væri þá þeim tilgangi náð, að hin íslenska þjóð yrði vínþjóð, en ekki brennivínsþjóð. Jeg hefi farið um lönd þar sem menn drekka vín daglega svo sem vjer mjólk, og eru þær þjóðir eigi heilsuverri en aðrar, nema síður sje, en aftur á móti ljettlyndar og glaðar öðrum þjóðum fremur. Það eru hin sterku og vondu vín, er spilla heilsunni og geta gert menn dálítið ærða, ef eigi er gætt hófs. Það eru þau vín, sem kauplæðingarnir selja og vjer getum nú útrýmt, ef vjer viljum nota bannið og Spánarundanþáguna sem uppeldismeðal á þjóðina.