24.02.1923
Neðri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í C-deild Alþingistíðinda. (2482)

4. mál, embættaskipun

Forsætisráðherra (SE):

Jeg hefi þá misskilið kjósendur mjög, ef þeir eru yfirleitt mótfallnir sparnaði. Það getur vel verið, og er skiljanlegt, að mönnum í hverri sýslu um sig þyki sárt að missa sýslumann sinn. En yfirleitt verða kjósendur að fórna slíku vegna hagsmuna heildarinnar.

Að hjer sje ekki um sparnað að ræða, þykir mjer fullfreklega mælt. Þetta hefði einhverntíma þótt sparnaður, og hefir oft orðið mikið tal um minni sparnað en hjer ræðir um. Hjer er um margfalt meiri sparnað að ræða en mönnum hefði komið til hugar að bera fram áður. Vona jeg því, að menn hugsi sig um tvisvar, áður en þeir fella þetta frv. En ef frv. nær samþykki þingsins, sýnir það, að alvarlegur rekspölur er kominn á að minka embættiskostnað hjer á landi. Það er ljóst, að aldrei verður unt að vinna stórt í þessa átt eða aðrar, án þess að einhverju þurfi að fórna. En vilji menn ekki fórna neinu, verður sparnaðurinn einungis hjal. (BJ: Hve miklu myndi þessi sparnaður nema, t. d. 1930?). Aðalatriðið í þessu máli er ekki að spara í ár, heldur hitt, að koma sparnaðinum í kerfi. Vjer verðum að hugsa um framtíðina og koma embættakerfinu í það horf, er þjóðinni hæfir. Gangi þetta vel, verður sparað á fleiri stöðum. En þjóðin getur ekki til frambúðar borið þetta mikla embættakerfi, hún ris ekki undir þeim útgjöldum, er það bakar henni.