02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í C-deild Alþingistíðinda. (2501)

4. mál, embættaskipun

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg veit ekki, hvort skilja beri hæstv. forsrh. (SE) svo, að hann ætlaði að þiggja gjöf minni hl. eða ekki, því ræða hans var nokkuð óljós og óákveðin í því.

Annars finst mjer afstaða hæstv. forsrh. (SE) heldur einkennileg. Hann segir t. d. um háskólann, að ekki sje hægt að leggja embætti þar niður, t. d. í heimspekisdeildinni, því störfin þurfi að vinna hvort sem væri. En finst honum þá minna um vert sýslumannsstörfin en embætti grískudósentsins eða prófessorsins í hagnýtri sálarfræði? Eða hvað ætli kennararnir í norrænudeildinni hafi marga nemendur á ári og útskrifi marga? Sannleikurinn er sá, að almenningur fylgist ekki með í sparnaðinum meðan byrjað er á öfugum enda. Það er fyrst, þegar hann sjer að rjett leið er farin, að hann getur viðurkent viðleitnina.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, máli sínu til stuðnings, að símarnir hefðu eytt svo fjarlægðunum, að embættismenn, sem áður hefðu verið óhjákvæmilegir, væru nú óþarfir. Það er nokkuð til í þessu, en hins vegar er þó þess að gæta, að enginn samanburður er, hversu margfalt fleiri tegundir mála falla nú undir sýslumennina en áður, og verða þau, að minsta kosti ekki öll, afgreidd í síma. það ætti honum sjálfsagt að vera kunnugt um. Og er hann sagði, að flokkun sýslumannanna kæmi við hjörtun í okkur þm., þá skal jeg játa, að svo sje. Og ástæðan til þess er sú, að vjer teljum, að með frv. sje rjettur og hagsmunir almennings fyrir borð bornir, og er þá ekki sanngjarnt að bera oss brigslum fyrir það, að vjer tökum oss það nærri og viljum koma í veg fyrir að það verði.

Þá talaði hæstv. forsrh. um það, að verksvið sýslumanna væri orðið of lítið, eða með öðrum orðum, að þeir hefðu of lítið að gera. En hvernig er hægt að halda því fram, að þeir hafi of lítið að gera og þó telja óhjákvæmilegt, að mjög mikið fje fari í skrifstofukostnað. (Forsrh. SE: Þeir hafa of lítið að gera, sem lögfræðisþekkingu þar sjerstaklega til). Já, það kemur að því, sem jeg bygði mína útreikninga á, að aðeins gæti komið til mála, að sparaðist mismunurinn á launum löglærðra manna og ólöglærðra, því öll störfin þyrftu að vinnast, og eru raunar öll greiðari mönnum með lögfræðisþekkingu. Þá er það ekki rjett, að jeg hafi viljað minka embættin. Fram á það hefi jeg aldrei farið, og er þeirrar skoðunar, að þau eigi að halda sjer, nema að sameina mætti Dalasýslu og Strandasýslu.

Hæstv. forsrh. áleit, að nál. okkar væri fimbulfamb, þar sem engar ástæður væru færðar fram. Jeg skal ekki deila um það við hann, hvort rökin, sem við færum fram í nál. sjeu veigamikil eða ekki, en hitt þori jeg að fullyrða, að það er að minsta kosti ekki ver skrifað heldur en athugasemdirnar við stjórnarfrumvarpið, því það er sannast að segja, að stjórnin hefir orðið drýgri í því að tína til vitleysur í það heldur en röksemdir. Hæstv. forsrh. hefir heldur aldrei reynt að fara út í rök mín eða hrekja þau, og segist ekki einu sinni vita, hvort tölurnar, sem jeg hefi tilfært, sjeu rjettar eða ekki, en lætur sjer svo nægja að slá því föstu, rannsóknarlaust, að þær sjeu rangar.

Hann hefði þó átt að geta sagt um það, hvers vegna hann telji laun sýslumanna vera 9500 kr. í stað 7200 kr., en svo stóð það í athugasemdum hans, og eru það aðaltölurnar, sem jeg bygði á. Jeg áætlaði tveim aðstoðarmönnum laun, 3000 kr. hvorum, og finnist honum þetta of hátt, þá getur hann gert athugasemdir við það þegar í stað. Sýslunefndarkostnaðurinn í Skagafirði er áætlaður 1000 kr. á ári.

Hæstv. forsrh. taldi þessi umdæmi, Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu, erfið til yfirsóknar, en störfin þar ekki mest, og mintist í því sambandi á málafjöldann. Jeg hefi nú athugað málafjöldann á árunum 1904–1913, og komist að raun um, að á þessu tímabili koma jafnmörg sakamál fyrir í Skagafjarðarsýslu og Suður-Múlasýslu, og það eru þó þau málin, sem vitanlega taka altaf mestan tíma. En hann slengir saman lögreglumálum og sakamálum, og tekur svo meðaltal af öllu saman. En honum ætti þó sjálfum að vera kunnugt um, að þessar tvær tegundir mála eru alls ekki sambærilegar. Sömuleiðis talaði hann um, að ekki mundi til lengdar vera hægt að daufheyrast við kröfum sýslumanna um hækkun á skrifstofufje. Er fróðlegt að bera þetta saman við ummælin í stjórnarfrumvarpinu, ef 3500 kr. á að veita til uppbótar starfi sex manna, sem teknir verði í burtu. Virðist hjer vera mótsögn á ferðinni. Enda er það sannast að segja, að skrifstofukostnaður sýslumanna er miklu fremur of hár en of lágur.

Það var raunar ágætt, að hv. minni hl. nefndarinnar gat komið með ástæður, sem hæstv. forsrh. þóttu mikilsverðar. En leiðinlegra er það fyrir hann, að sú höfuðástæða, sem ber frv. uppi, sparnaðurinn, er nú fallin í burtu. Hæstv. forsrh. hefir ekki sjeð sjer fært að hrekja tölurnar, sem jeg kom með, enda veit jeg, að það er ekki hægt, og alt tal um sparnað í þessu sambandi er út í bláinn. Því þessi störf þarf að vinna, og það eina, sem hægt er að segja, er það, að annaðhvort sje um lítinn sparnað að ræða, eða það, að sýslumennirnir hafa of lítið að gera, og þá er sá vegur fyrir hendi, að lækka skrifstofukostnaðinn. Sú leið er rjett.