02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í C-deild Alþingistíðinda. (2508)

4. mál, embættaskipun

Bjarni Jónsson:

Jeg heyrði það síðast, að hæstv. forsrh. sagðist tala með tölum og rökum. En hver er þá tala rakanna? Jeg held að það sje ekki nema um eina tölu að ræða og eina röksemd, og það er sparnaðarhjal. En sú tala, sem þar er nefnd, er marghrakin. Úr því að það átti að fara að spara og steypa saman embættum, þá hefði átt að gera að einni sýslu frá Þjórsá og vestur í Hvammsfjörð, aðra sýslu mætti hafa um alla Vestfirði, þriðju frá Hrútafirði til Eyjafjarðar, og svo í einu eða tvennu lagi það, sem þá er eftir, þannig, að á öllu landinu verði 4–6 sýslur. Hafi hæstv. stjórn ætlað að gera landsmönnum hagnað með þessu, þá hygg jeg, að það fari á aðra leið. Jeg er hræddur um, að þegar hver sýsla þarf að fá sinn sýslunefndaroddvita, þá þurfi þær að borga þeim úr sínum eigin sjóðum, ef þeir eiga ekki að vera launaðir af ríkinu. Jeg held, að reikningur hv. 1. þm. Skagf. (MG) sje rjettur, að á þessum sparnaði sparaðist 12 þús. krónur, sem aftur muni fara í súginn við aukið skrifstofuhald. (Forsrh. SE: Það eru gamlar reikningsbækur, sem þm. notar). Ja, jeg veit ekki til að hæstv. kenslumálaráðherra hafi gefið út neina nýja reikningsbók; jeg kenni mínum strák þá gömlu. (Forsrh. SE: Þm. telur þá ekki 2x2–4). Jú, einmitt það, eftir gömlu reikningsbókunum, en kenslumálaráðherra hefir víst komist að þeirri niðurstöðu, að 2x2=5. — Þetta er bókstaflega yfirgangur við landsmenn og annað ekki, enda getur ekki óvinsælla frv. en þetta er.

Jeg hygg, að það hefði verið betra að leggja niður öll sýslumannaembættin, en taka upp fjórðungsdóma í staðinn, og skilja þannig að dómsvald og framkvæmdavald. Þetta hefir stjórnin látið órannsakað, hvort kleift væri; og ef hún hefði fundið þetta upp sjálf og komið góðu skipulagi á það, þá hefði hún unnið sjer til mikils heiðurs.

Jeg álít það ósæmilegt að láta hreppstjóra starfa að ýmiskonar aukaerfiði, án nokkurra launa; en ætti aftur á móti að fara að launa þeim störf sín sómasamlega, þá ætist sparnaðurinn við fækkun sýslumannaembættanna margfaldlega upp.

Jeg hefi áður lýst, hvernig mjer geðjast að þessum sparnaðarósparnaði, og vænti, að háttv. þm. felli þetta frv. umsvifalaust. En að stjórnin láti athuga aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds, og stofnun fjórðungsdóma, athuga, hvort hægt er að útvega ríkinu ódýrari tollgæslumenn í stað sýslumanna. Meðan þetta er órannsakað mál, er ekki lítandi við öðru eins kákfrumvarpi og þetta er, sem hjer liggur fyrir. En þó eru brtt. hv. minni hl. allshn. ómerkilegasta kákið.

En jeg stóð aðallega upp til þess að minnast á þetta nýnæmi háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að leggja niður heimspekisdeild háskólans. Áður þótti það vera hið mesta menningarmál, að hafa háskóla og gera þessa deild að vísindastofnun. Nú á það aftur að vera menningarmál að leggja hana niður. Háttv. þm. (JÞ) ætti að vita, að þessi deild var stofnuð til þess síðar að bera frægð og heiður þjóðarinnar út um heiminn, og að hún er í raun og veru aðaldeild háskólans. Erlendir námsmenn eiga að koma hingað til þess að nema íslenska tungu og íslensk fræði. Hv. þm. (JÞ) hjelt því fram, að það væri betra að nema slík fræði annarsstaðar. En þá er vert að spyrja: Hvers vegna sækjast erlendir háskólar — í Danmörk og Noregi — eftir Íslendingum til að kenna hjá sjer? Ætli þeir sjeu miður fullkomnir á meðan þeir eru hjer heima, en miklu betri, þegar þeir eru komnir út fyrir pollinn? Jeg skil ekki í því, að það hefði tapast neitt af hæfileikum prófessors Finns Jónssonar, þó hann hefði fengið sömu kosti og kjör hjer heima eins og hann hefir notið í Höfn. Mjer skilst líka, að prófessor Sigurður Nordal mundi verða jafngildur kennari hjer heima eins og í öðru landi, með sömu kjörum. Það er menningarmál að láta okkar góðu kennara ekki svelta, og að láta heimspekisdeildina ekki skorta fje.

Háskólinn er enn ungur, og hefir aðeins starfað síðan 1911. Það er því tæplega von, að hann hafi unnið sjer frægð á þeim stutta tíma; nokkrir útlendir námsmenn hafa þó sótt hingað á þessum árum, og ætti þess ekki að verða langt að bíða, að enginn, hvar sem hann væri í heiminum, þættist vera lærður í íslenskum fræðum nema hann væri búinn að hlýða á íslenska prófessora við íslenskan háskóla.

Jeg veit, að þetta er ekki beinlínis viðkomandi því máli, sem er á dagskrá. En af því að háttv. þm. (JÞ) gaf stjórninni bendingu um þetta efni, þá vildi jeg líka benda stjórninni á, að þetta væri eitt hið versta verk, að fella niður heimspekisdeildina, og býst jeg við, að þjóðin mundi standa fast á móti því. Enda væri þetta ekki rjettara en stendur í öfugmælavísunni:

„Sjeð hef jeg köttinn syngja á bók, selinn spinna hör á rokk, skötuna elta skinn í brók, skúminn prjóna smábandssokk.“

Jeg vil svo ekki tefja þessar umræður lengur, en vænti, að háttv. þm. lofi þessu frv. að sofa í friði, þangað til nákvæmari rannsókn hefir farið fram í málinu.