02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í C-deild Alþingistíðinda. (2509)

4. mál, embættaskipun

Þorleifur Jónsson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs í dag áður en umræðurnar lengdust. Síðan er búið að tala margt, sem jeg vildi sagt hafa í þessu máli, sem mjer virðist hafa tvær hliðar. Mjer dylst það ekki, að ef frv. yrði samþykt, þá mundi það leiða til ekki óverulegs sparnaðar, þó að hann auðvitað komi ekki fram fyr en smátt og smátt.

Stjórnin gerir ráð fyrir, að spara megi 50 þús. krónur á ári, og þó að það reyndist 10 þús. krónum minna, þá tel jeg það allverulegan sparnað. Jeg get ekki láð stjórninni, þó að hún komi fram með þetta frv. Hún fjekk á síðasta þingi áskoranir um að spara og fækka embættum. Helstu gallarnir, sem af þessu frv. leiða, eru t. d. þeir, að manntalsþingin skuli lögð niður; því að viða út um land þykir mönnum vænt um að fá sýslumanninn á þingin; ekki síst þar, sem hann er sjaldan á ferð, eins og t. d. í minni sýslu. Þó að þeir dæmi ekki mál manna eða felli úrskurði, þá geta þeir gefið ýmsar góðar leiðbeiningar. Þetta þykir mjer vera versti gallinn á frv. Hinum agnúunum geri jeg minna úr t. d. að erfitt verði að fá sýslunefndaroddvita; jeg held, að það megi víða fá menn til þess starfs, að hafa á hendi forustu í hjeraðsmálum.

Jeg get búist við, að ýmsum þingm. þyki undarlegt, að jeg skuli vera að mæla með þessu frv., þar sem leggja á Austur-Skaftafellssýslu til Suður-Múlasýslu. Skaftafellssýslurnar hafa um langan aldur verið saman umsýslumann, og þótt jeg uni því sambandi vel, þá hafði jeg ekki hugsað mjer að setja mig á móti frv. af þessum ástæðum, ef breytingar þær, er frv. ráðgerir að öðru leyti, ná fylgi.

Öll nefndin hefir lagt á móti sumum breytingunum; en minni hl. hefir lagt til að samþykja tvær af þeim. Það er: sameining á Skaftafellsög Rangárvallasýslum og svo Dala- og Strandasýslu. Þetta álít jeg vera kák, sem ekki er við eigandi. Jeg held, að þessar samsteypusýslur yrðu erfiðar yfirferðar, einkum ef ætlast er til þess, að sýslumenn haldi uppi þingaferðum. Þá vil jeg t. d. benda á, að það eru fullar 7 dagleiðir frá Lónsheiði að Þjórsá, á sumardag. Til þingaferða gæti, á þessu svæði, ekki farið minni tími en 4–5 vikur. Í þessum þremur sýslum eru samtals 22 hreppar.

Það hefir verið fundið sýslusamsteypunni til foráttu, að þá yrðu ýms umdæmin of viðlend; en jeg held, að þessi samsteypusýsla yrði þó stærst og erfiðust. Jeg vil til samanburðar benda á, að Borgarfjarðar-, Gullbringu- og Kjósarsýslur eru ekki nema helmingur að vegalengd móti hinum; þar eru líka 22 hreppar; og mundi hún þó talin erfið.

Jeg þarf ekki að lýsa skoðun minni frekar, enda sje jeg að minni hl. nefndarinnar og þingmönnum yfirleitt er um og ó með þetta frv. Verði brtt. minni hl. aðeins samþ., þá verður sparnaðurinn lítils virði; jeg vona því, að þm. furði sig ekki á, þó jeg greiði atkv. á móti þeim, þrátt fyrir það, að jeg af sparnaðarástæðum vilji fylgja frv. í heild sinni. En fari svo, að þessar samsteyputill. minni hl. nái að ganga fram, þá sje jeg ekki eftir, að frv. fari ásamt þeim í eina gröf.