02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í C-deild Alþingistíðinda. (2510)

4. mál, embættaskipun

Gunnar Sigurðsson:

Jeg get verið stuttorður og skal ekki blanda mjer inn í deilurnar eða hlaupa í skörðin, heldur halda mjer eingöngu við árás minni hl. nefndarinnar á mitt kjördæmi. Hún hlýtur að skoðast bæði óalandi og óverjandi.

Háttv. minni hl. skar sig út úr nefndinni og vildi sameina Skaftafells- og Rangárvallasýslur og í öðru lagi Dala- og Strandasýslur. Það er að sínu leyti skárra, en þó er jeg því líka mótfallinn.

Þetta er svo frámunalega undarlegt, að vilja sameina þessar þrjár sýslur hjer sunnanlands, sem er nálega 1/4 hluti af fermáli alls landsins; og 7–10 dagleiðir enda á milli, frá Lónsheiði að Þjórsá. Háttv. minni hl. leggur að vísu ekki áherslu á þetta, en heldur þó þessum anga af stjórnarfrv., til vara. Vegalengdir á þessu svæði eru miklu meiri heldur en gert er ráð fyrir í stjórnarfrv., og með tilliti til þess, væri því nær lagi að sameina Austur-Skaftafells- og Suður-Múlasýslur. Á leiðinni frá Lónsheiði til Þjórsár eru 20 stórar ár, og margar þeirra ófærar á vetrum.

Af öllu illu í þessum málum er það þó skárst að sameina Árnes- og Rangárvallasýslur; þar eru margskonar sambönd á milli og ýms mál sameiginleg. Og með bættum samgöngum hefir það aukist á síðari árum.

Að síðustu vil jeg aðeins taka það fram, að jeg vona, að háttv. þm. felli alt frv., og ekki síður brtt. minni hl.