02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í C-deild Alþingistíðinda. (2511)

4. mál, embættaskipun

Pjetur Þórðarson:

Mjer virðist svo sem það sje öllu fremur mikill misskilningur heldur en lítilsvirðing á menningu hjeraðsbúa, sem kemur fram hjá hv. 1. þm. Rang. (GunnS), þar sem hann talar um, að verið sje að ráðast á sitt kjördæmi sjerstaklega með þessari fyrirhuguðu nýju embættaskipun. Hann telur afarnauðsynlegt, og leggur mikla áherslu á, að sýslumaðurinn búi í hans kjördæmi. Jeg lít öðruvísi á þetta mál, bæði þar og annarsstaðar, og ber meira traust til sveitamanna en svo, að jeg haldi, að þeir geti ekki verið sýslumannslausir innan kjördæmisins. Jeg get ekki skilið, hvers er sjerstaklega að sakna, þó að sýslumaðurinn búi einhversstaðar fjær í hjeraðinu eða stækkuðu lögsagnarumdæmi, en gegni sínum skyldum þar eftir sem áður. Einnig held jeg, að það sje ekki svo mikill mismunur á hæfileikum og þekkingu sýslumanna og annara leikmanna, að þeir ættu ekki að geta gegnt sómasamlega þeim störfum sýslumanna, sem til er ætlast í sambandi við þetta mál.

Mjer finst það tiltakanlega mikið vantraust á bændum og ómaklegt, að láta eins og menn sjeu að missa af verndarhendi guðs almáttugs með því að sjá af sýslumanninum úr hjeraðinu. Það er misskilningur — vægast sagt — á menningarástandi þjóðarinnar, að svo mikils missi við með þessu.

Með því að strika yfir nokkur stærstu orðin í ræðu hæstv. forsrh. (SE), svo sem um þjóðargleði og framtíðarsigur, þá tel jeg alveg sjálfsagt, að hv. deild fallist á ummæli hans í öllum aðalatriðum, og þar með á frv. sjálft, lítið eða ekkert breytt.

Jeg hafði hugsað mjer að gera brtt. við 1. og 2. gr. frv. til 3. umr., ef frv. yrði nú samþykt, sem ekki er ólíklegt. En jeg er farinn að sjá, að það er ef til vill ekki þess vert. Helsta breytingin væri þá fólgin í því, að sýslumaður Snæfellsnes-, Hnappadals- og Mýrasýslna sæti í Borgarnesi en ekki í Stykkishólmi. Það er ekki vegna þess, að jeg sjái eftir því, að enginn sýslumaður ætti að vera í mínu kjördæmi, heldur af því, að það yrði talsvert hentugra vegna þess, að það yrði miklu nær miðjunni í verkahring hans. Annars veit jeg ekki, hvort það er þess vert, að koma með þessar brtt. til 3. umr., ef það yrði til þess að tefja málið.

Hv. þm. Dala. (BJ) var að tala um, að ekki væri hugsanlegt að fá eins áreiðanlega og duglega innheimtumenn jafnódýrt og sýslumenn. En þetta nær engri átt, því að ódýrari menn og þó áreiðanlegir fást á hverju strái. Mjer er kunnugt um, að það eru margir leikmenn og bændur, fleiri en hreppstjórar — sem vitanlega eru allir mestu sæmdarmenn, það jeg veit til, og það er ekki svo óviða á landinu — sem eru eins áreiðanlegir í þessu efni og sýslumenn. Hv. þm. (BJ) sagði, að hjer ætti að ginna menn tíl að vinna þessi störf kauplaust; þetta nær heldur engri átt. Jeg hefi sagt það og sannað um fjöldamarga menn í Mýrasýslu, Borgarfjarðar-, Rangárvalla- og Árnessýslum og viðar, að þeir hafa haft á hendi í mörg ár eins mikla eða meiri innheimtu en um er að gera hjá flestum sýslumönnum landsins, innheimtu og peningaveltu, sem skift hefir mörgum tugum þúsunda í hverjum hreppi, og enginn bagi af hlotist, en mennirnir litla eða enga borgun þegið fyrir, og á jeg hjer við deildarstjórana í samvinnufjelögunum. Jeg hefi ekki sagt þetta alt til þess að kasta rýrð á heiðarleik eða dugnað sýslumanna, nje vegna þess, að þetta sje neitt aðalatriði, en það er óþarfi og ástæðulaust að halda því fram, að sýslumenn sjeu ómissandi vegna þessara starfa.

Hitt er annað mál, og síst til mótmæla stefnu þessa frv., er hv. þm. Dala. (BJ) mintist á, og jeg get gjarnan fallist á, að landinu yrði skift í enn þá færri lögsagnarumdæmi, því að dómsmálin eru víðast hvar ekki það yfirgripsmikil, að þau ættu að vera því til fyrirstöðu.