16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skal ekki heldur blanda mjer inn í umræðurnar, en einungis víkja orðum mínum að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Hann gat þess, að nú væru að opnast nýir markaðir í löndunum kringum Miðjarðarhafið, og vildi jeg gjarnan biðja hann um nánari skýringar á þessu. Mjer er sem sje kunnugt um, að dregið hefir úr fisksölu suður þangað nú í bili. Undanfarin ár hafa selst til Grikklands. mest gegnum Ítalíu, 10–12 þús. skippund, mest af Labradorfiski og ýsu, en í ár hefir því nær ekkert verið flutt þangað. Markaðurinn í Ítalíu hefir verið sjerstaklega laklegur á síðastliðnu ári. Verðið fjell afskaplega, af því að of mikið barst að, en markaðurinn mjög takmarkaður. Þá var gerð tilraun til að flytja Labradorfisk til Spánar, en verðið var lágt og sú sala borgaði sig ekki. Auk þess var seldur upsi og fiskur nr. 3 til Norður-Afríku, en það var lítið, í mesta lagi 1000 –2000 skippund. Síðastliðið ár seldist óvenjumikið af fiski til Norður-Spánar, en það var vegna þess, að samningur Norðmanna og Spánverja gekk í gildi svo seint á árinu.

Þetta er það, sem jeg veit rjettast um fisksölu til Miðjarðarhafslandanna, og vildi jeg því leyfa mjer að biðja hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um gleggri upplýsingar um það, á hverju hann byggir fyrnefnd ummæli sín.