26.02.1923
Neðri deild: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

15. mál, afnám biskupsembættisins

Forsætisráðherra (SE):

Á þinginu 1881 kom fram frv. um afnám biskupsembættisins, en það frv. kom aldrei til umræðu. Á þinginu 1891 kom aftur fram frv. um að þetta embætti skyldi lagt niður, en var felt í neðri deild með sáralitlum atkvæðamun. Á Alþingi 1903 var enn borið fram frv. um, að biskupsembættið skyldi sameina forstöðumannsembættinu við prestaskólann. Það frv. var samþykt í efri deild, en afgreitt með rökst. dagskrá í neðri 49 deild. Loks var samþ. á þinginu 1905 þáltill. um, að stjórnin veitti eigi biskupsembættið, þó það losnaði, fyr en ræddar hefðu verið till. milliþinganefndar í kirkjumálum.

Eins og sjá má af þessu, er þetta frv. enginn nýr gestur hjer á Alþingi, heldur hafa hvað eftir annað verið að koma hjer fram raddir um, að biskupsembættið, eins og það er nú, sje með öllu óþarft. Jeg gæti að mestu látið nægja að vísa til aths. við frv., en skal þó í örfáum orðum minnast á einstakar greinar biskupsstarfseminnar.

Biskup vísiterar landið við og við. Lítur hann á þeim ferðum sínum eftir munum kirkjunnar og svo hinu, hvernig prestar ræki störf sín. Fæ jeg ekki betur sjeð en hægt væri að fela próföstum landsins þetta hvorttveggja, kirkjunni að skaðlausu. Þá vígir biskup prestaefni landsins. Þennan starfa gætu vígslubiskupar leyst jafnvel af hendi. Þá á biskup forsæti á synodus. Það mætti fela vígslubiskupnum í Skálholtsbiskupsdæmi hinu forna. Fermingarleyfi geta prófastar eins vel veitt eins og biskup, og sömuleiðis dugar, að þeir feli stjórnarráðinu auglýsingu lausra prestakalla.

Af þessu öllu er auðsætt, að það er hægt að leggja niður biskupsembættið og skifta störfum biskupa á milli stjórnarráðsins, prófasta og vígslubiskupa. Að vísu veit jeg, að ýmsum kann að þykja þetta embætti svo gamalt og sögulegt, að ekki sje rjett, sökum þeirra minninga, sem við það sjeu bundnar, að leggja það niður. En jeg lít svo á, að þótt eitthvað sje eldra en alt, sem gamalt er, þá sje rjett að leggja það niður, ef kröfur tímans krefjast þess. Auk þess er því svo varið hjer, að hið veraldlega vald biskupsins er nú orðið tómur skuggi. Stjórnarráðið hefir í raun rjettri aðalvald kirkjumálanna í höndum sjer. í öllum stærri atriðum hefir biskupinn aðeins ráðgefandi vald. Jeg fæ því ekki sjeð, að neitt sjerstakt sje við það að athuga, þótt þetta litla veraldarvald, sem eftir er í höndum biskups, sje afnumið með öllu. Það veraldarvald, sem biskup fer með, gerir embætti hans í engu veglegra en annars væri. Með þessu er og biskupsembættinu alls ekki útrýmt úr landinu. Við höfum nú tvo vígslubiskupa, sem auðvitað hjeldu áfram eins og frv. gerir ráð fyrir. Mætti, ef mönnum sýndist svo, kalla þá biskupa. Hjeldi biskupsembættið með því móti áfram að vera til, en störf þess væru þá bara kirkjulegs eðlis.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar að sinni, en leyfi mjer að leggja til, að málinu, að umr. lokinni, verði vísað til allshn.