26.02.1923
Neðri deild: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í C-deild Alþingistíðinda. (2535)

15. mál, afnám biskupsembættisins

Magnús Jónsson:

Á þinginu í fyrra komu fram ýmsar till. um að leggja niður hin og þessi embætti. Jeg var ekki með því þá, að narta svo í eitt og eitt embætti af handahófi og rífa þau út úr heildinni, án þess að nokkurt heildaryfirlit væri tekið. Eins og menn muna, lofaði hæstv. núverandi stjórn að taka alt embættabákn landsins til rækilegrar endurskoðunar og gera síðan till. um það, hver embætti fella mætti niður. En svo þegar nú hæstv. stjórn kemur fram með þessar sparnaðartillögur sínar, þá er það ekkert annað en sama nartið og áður, og þó síst betra. En ef nauðsyn krefur, að nartað sje í embættakerfi landsins, þá er fjarri því, að á sama standi, hvar er nartað. Það verður líka að gera sjer ljóst, hvert markmiðið er með nartinu. Eins og nú stendur á, er það vegna fjárhagsþrenginga vorra, sem verið er að reyna að fækka embættum. Jeg veit ekki til, að neinar raddir kæmu fram um það, að embættin væru of mörg meðan hagur ríkisins var rýmri, heldur var þá jafnan fjölgað. Það er aðeins sú yfirstandandi neyð, sem knýr menn til þessara skurðartilrauna.

Það, sem hæstv. stjórn hefði því aðallega átt að sælast til, var það, að beita hnífnum á þann hátt, að af leiddi sparnað samstundis eða á næstu árum. Hin aðalreglan hefði átt að vera sú, að skera heldur niður nýstofnuð embætti en þau, sem eru orðin gömul og gróin með þjóðinni, og mjög erfitt að sjá fyrir, hve mikill skaði væri að missa. Hvorugri reglunni hefir hæstv. stjórn fylgt hjer. Að því er snertir fyrra atriðið, þá er biskup vor enn á besta skeiði og vonandi að hans njóti við enn þá svo skifti tugum ára, nema hæstv. stjórn ætli að gripa til einhverra nýrra ráða, sem jeg kem að síðar. Hvað síðara atriðið áhrærir, þá er hjer um að ræða elsta, virðingarmesta og merkilegasta embættið í sögu þjóðar vorrar, sem í hafa setið nýtustu synir hennar.

Jeg þykist vita, að hæstv. forsrh. (SE) muni ekki þykja tilfinningatal eiga við í þessu efni. Og jeg skal játa, að ýmislegt gamalt gæti verið til, sem kröfur tímans heimtuðu, að afnumið væri. Ef enn þá væru t. d. í gildi hjer á landi lögin um útburð barna, þá skyldi jeg aldrei amast við, að þau væru úr gildi numin, þó gömul væru. (Forsrh. SE: Það gleður mig virkilega að heyra þá yfirlýsingu háttv. þm.). En jeg kannast alls ekki við, að neinar kröfur tímans heimti, að biskupsembættið sje afnumið. Vil jeg leyfa mjer að benda á, að frændþjóðir vorar á Norðurlöndum virðast ekki hafa orðið neitt varar við þær kröfur tímans í þessu efni, sem hæstv. forsrh. var að tala um áðan. Einmitt um sama leyti sem við erum að ráðgera að koma fyrir þessum eina biskupi okkar, fer hin mikla biskupsvígsla fram hjá Dönum. Þeir ætla nú að fjölga biskupum sínum um tvo. Og Norðmenn eru nú sem ákafast að ræða það með sjer, hvort ekki muni rjett að endurreisa gamla erkibiskupsstólinn í þrándheimi og stofna biskupsstól í Stafangri. Jeg býst því við, að ráðlegra væri að fara eitthvað annað til að leita að kröfum tímans en til biskupsstólsins; vildi jeg þá t. d. benda á sum ákvæði hegningarlaganna, sem enn eru í gildi. (Forsrh. SE: Jeg hefi aldrei líkt biskupi landsins við hegningu). Annars á hæstv. forsrh. ekki að ráða þessu einn til lykta. Það er þjóðin og fulltrúar hennar, sem á að skera úr í því máli. Og jeg geri fastlega ráð fyrir, að hún muni ekki fallast á annað eins glapræði og hjer er um að ræða. Að minsta kosti vil jeg segja, ef þjóðin vill á þetta frv. fallast, þá hefir hún glatað tvennu, sem henni er dýrmætt. Annað er virðing hennar fyrir því, sem henni á að vera heilagt sakir þess, hve lengi það hefir fylgt henni trúlega og verið henni til góðs, en hitt er skilningur á gildi hinna andlegu mála. Þau verða að vísu ekki talin nje metin í krónutali, en hafa gildi sitt engu að síður, gildi, sem jeg vona, að enginn háttv. þm. lítilsvirði. Og jeg vil segja, að ef þjóðin glatar þessu tvennu, þá hefi jeg litla von um að hún lifi lengi sem sjerstök menningarþjóð, þrátt fyrir útflutning fisks og smjörs.

Jeg hafði annars ekki hugsað mjer að teygja umræður um þetta mál við þessa umr. Þó vildi jeg láta þessi orð fylgja frv. í gröfina, ef svo færi, að það yrði látið sofna fyrir fult og alt nú þegar í stað. Þá meðferð tel jeg maklegasta á slíku frv. sem þessu. Jeg skal játa, að oftast tel jeg það hálfgert grimdarverk að fella mál frá 2. umr. En til eru þó mál, sem eru svo einföld í fjarstæðu sinni, að engin þörf er að upplýsa þau frekar í nefnd.

Við höfum nú hjer fyrir okkur aths. við frv. og ræðu hæstv. forsrh. Og jeg skal nú leyfa mjer að fara lítið eitt út í þau einstöku atriði og líta á ástæðurnar fyrir frv.

Jeg vil þá skifta þeim í þrjá flokka. Ljettvægar ástæður, villandi ástæður og rangar ástæður. Til 1. flokksins tel jeg það, er það er fært sem ástæða fyrir frv., að ekki hafi verið kyrt um biskupsembættið í síðustu 40 ár. Jeg efast um, að hæstv. forsrh. vilji taka afleiðingunum af þessari röksemdafærslu. Með því móti mætti öllu finna stað. Allur galdurinn væri að byrja að tönlast á því nokkrum árum áður en því væri ætlað fram að ganga. Að slík mál koma fram á þinginu, þarf líka alls ekki að stafa af því, að nokkur þjóðarvilji standi þar að baki, heldur kunna þau að vera borin fram af ertni við þáverandi stjórn eða öðrum svipuðum ástæðum.

Þá taldi hæstv. forsrh. upp ástæður úr æfagömlu erindisbrjefi, sem varð til skömmu fyrir miðja 18. öld. Hann taldi þar upp störf biskups, hvert á fætur öðru, en honum varð sú skyssa, sem maður skyldi síst trúa að kæmi fyrir kirkjumálaráðherrann, að gleyma einu aðalstarfi biskupsins. En það er, að biskup er fyrst og fremst andlegur leiðtogi. (Forsrh. SE: í ástæðunum fyrir frv. er drepið á þetta, þar sem talað er um að biskup eigi að sjá um, að prestar ræki vel störf sín og kenni rjetta lærdóma þjóðkirkjunnar). Hæstv. stjórn hefir orðað greinina undarlega, ef hún hefir með þeim orðum átt við það, sem jeg kalla andlega forustu. Ef vjer lítum yfir biskuparöðina, þá eigum við máske hægra með að átta okkur á því, í hverju starf biskupanna hefir verið fólgið. Nefnum í lúterska siðnum menn eins og Guðbrand, Brynjólf, Vídalín, Jón Arason, Pjetur biskup og fleiri. Hvað gerðu þessir menn? Hæstv. forsrh. (SE) myndi ef til vill svara: Vísiteruðu við og við, litu á embættisbækur, vígðu presta, sátu synódus, auglýstu prestaköll og geymdu nokkra sjóði.

Jeg verð að segja það, að það stappar nærri hneykslanlegu skilningsleysi, er hæstv. forsrh. (SE) talar um, að starfsemi þess manns, sem situr í sæti þessara manna, sje aðallega fólgin í skrifstofuvinnu fyrir stjórnarráðið. Að minsta kosti vildi jeg ekki fela slíkri stjórn alla umsjón kirkjumálanna. Maður skyldi þó ætla, að ef nauðsynlegt er að hafa mann með biskupslaunum til að líta eftir að salan í dálítilli búðarholu fari fram eins og vera ber, þá ríði ekki síður á að hafa einhvern til að líta eftir andlegum málum þjóðarinnar. Hæstv. forsrh. (SE) kvað vígslubiskupum það hægðarleik að taka að sjer einn hluta af biskupsstarfinu. Þetta eru bara tóm orð. Því hvernig ætti oft að fara að því að ná í þessa menn utan af landi, þegar á lægi. Ef ekki á að borga þeim sjerstaklega fyrir þennan starfa sinn, yrðu þeir eins og aðrir prestar að búa og þá um leið helga sig búskapnum að hálfu leyti. Nei, jeg endurtek það, að annað eins og þetta getur ekki skoðast nema tóm orð. Orð, sem er ætlað að breiða yfir aðra eins óhæfu og þá, að hafa biskupslausa þjóðkirkju. Það hefir stundum verið minst á það í þessum sal, að hin og þessi lög gætu gert oss að athlægi erlendis. Slík lög sem þessi myndu áreiðanlega gera það. Jeg veit ekki til, að evangelisk lútersk þjóðkirkja án biskups sje eða hafi nokkurntíma verið til í veröldinni. Auk þess býst jeg við, að þetta myndi stappa nærri stjórnarskrárbroti. 58. gr. hennar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Jeg verð að kalla það heldur einkennilega vernd við kirkjuna að vilja taka höfuðið af henni. Og sú vernd kemur úr hörðustu átt, frá sjálfum formanni stjórnarinnar, honum, sem er ætlað, samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar, að vaka yfir kirkjunni í þessum efnum. Kemur hjer berlega fram, sem sagt var nýlega á fundi einum hjer í bæ, að þar skal vera ein hjörð, en enginn hirðir.

Aðaltilgangur þessa frv. á að vera sparnaður, en sá reikningur er einkennilega settur upp, bæði rangt og villandi. Í fyrsta lagi eru biskupslaunin talin 9500 kr., og átti jeg við þetta, er jeg sagði, að stjórnin hefði jafnvel gefið vilyrði um að losa okkur við núverandi biskup innan skamms, eða áður en dýrtíðaruppbótin lækkar að mun, því að án uppbótar eru hámarskslaun biskups 7000 kr. Þar næst er skrifstofukostnaður tal inn 3500, eða eins hár og hann hefir orðið hæstur. (Forsrh. SE: Þetta stafar af vangá; hefði átt að telja liðinn 2000 kr.). Þarna lækkar upphæðin, sem spara á, um 1500 kr. Loks er talinn vísitasiukostnaður 1200 kr. En þeim kostnaði má allra síst sleppa. Að vísu er gert ráð fyrir, að vísitasiur prófasta komi í stað vísitasiuferða biskups, en þeir, sem halda því fram, sýna einungis, að þeir bera ekki skynbragð á málið. Þeir hanga í erindisbrjefi biskupa frá 1746, en skilja ekki aðaltilgang og aðalgagn vísitasianna. Á ferðum þessum kynnist biskup fjölda manna og málefna um alt land, og er einmitt nauðsynlegt kirkjumálastjórninni að hafa slíkan mann sjer til aðstoðar. Það er álitið óhjákvæmilegt að hafa vegamálastjóra, vitamálastjóra, fræðslumálastjóra o. s. frv., sem víða hafa farið og eru viða kunnugir um landið, til leiðbeiningar stjórninni. Myndi kirkjustjórnin fremur geta komist af án þess? Núverandi biskup hefir sagt mjer — í öðru sambandi og fyrir löngu — að hann þættist ekki vera nema að hálfu leyti biskup yfir þeim hjeruðum, er hann hefði ekki vísiterað.

Jeg býst við, að sparnaðurinn verði miklum mun minni en látið hefir verið í veðri vaka, því dæmið er rangt sett upp. En auk þess kemur nýr kostnaður, sem vega mun á móti sparnaðinum. Próföstum þyrfti að borga sjerstaklega fyrir þau störf, sem á þá væri bætt, alveg eins og þeim er nú greidd þóknun fyrir aukastörf sín. Vígslubiskupum þyrfti áreiðanlega að greiða fyrir störf þau, sem á þá væri lögð. Vígslubiskupinn í Skálholtsbiskupsdæmi hinu forna gæti setið hvar sem væri í biskupsdæminu og þyrfti ef til vill að greiða honum háan ferðakostnað, þegar hann fer til Reykjavíkur árlega til þess að eiga forsæti á synodus og vígja presta. Loks myndu störf stjórnarráðsins aukast að mun. Nú situr að völdum svo sparsöm stjórn, að hún hefir vitanlega enga óþarfa menn í stjórnarráðinu; þar hafa allir nóg að starfa. Þegar þetta bætist við, verður sýnilega að fjölga starfsmönnum, og flyst þá skrifstofukostnaður biskups yfir í stjórnarráðið, svo að hann sparast alls ekki.

Fyrir þennan hraksmánarlega litla sparnað er nú farið fram á það, sem stappar nærri stjórnarskrárbroti. Samþykt þessa frv. myndi verða oss til háðungar og stórskaða, og kysi jeg því helst, að það kæmi ekki oftar fram, heldur væri drepið strax, ef hæstv. stjórn vill ekki taka það aftur.