26.02.1923
Neðri deild: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í C-deild Alþingistíðinda. (2539)

15. mál, afnám biskupsembættisins

Forsætisráðherra (SE):

Þó að ræða háttv. þm. N.-Ísf. (SSt) væri löng, get jeg svarað henni í fáum orðum. Hæstv. atvrh. (KIJ) hefir svarað honum að því er snertir sparnaðartillögurnar á síðasta þingi. Það var sýnt fram á það þá, að þegar tekið er tillit til eftirlauna þeirra, sem hv. þm. N.-Ísf. (SSt) ætlaði grískudósentinum, og til kenslu þeirrar, sem á annan hátt hefði orðið að útvega háskólanum, þá hefði orðið, fjárhagslega sjeð, tap á því að leggja embættið niður. Háttv. þm. (SSt) vantar alt fjárhagslegt yfirlit, ef hann hyggur að hækka megi gengi íslenskrar krónu nú með því, sem beinlínis sparast við niðurlagningu embætta. Það er hjegómi að halda slíkt.

Á hinn bóginn er það líka mjög mikill misskilningur, ef Alþingi gerir nú ráðstafanir til að sniða íslensku þjóðinni fjárhagslegan stakk við hennar hæfi fyrir framtíðina, að álíta, að það hafi ekki gildi nú. Það væri öðru nær. Ef útlendir fjármálamenn sæju merki þess, hefði það mjög svo mikla þýðingu um að auka álit vort út á við.

En sannleikurinn er sá, að háttv. þm. (SSt) hefir á sjer yfirskin sparseminnar, en afneitar hennar krafti. Þegar stjórnin hefir komið fram með frumvörp til sparnaðar, flýr hann undan sparnaðinum og vill ekkert af honum vita.

Og undirbúningnum er ekki hægt að kenna hjer um, því jeg hygg, að hver, sem les sýslumannafrumvörpin, verði að játa, að þau sjeu mjög vel undirbúin.

Háttv. þm. (SSt) var mjög langorður og var stundum mjög örðugt að finna rauða þráðinn í ræðunni, en hann þurfti alls ekki að hafa fyrir því að slá alt of mikið á strenginn um hina fornu frægð biskupanna, því jeg mintist sjálfur á hana og viðurkendi hana í alla staði.

Jeg verð að játa, að mjer varð flökurt, þegar háttv. þm. (SSt) var að tala um, að stjórnin fetaði í fótspor erlenda valdsins. Háttv. þm. ætti sem minst að ræða um sjálfstæðismál þjóðarinnar, og ef hann hefði ráðið, væru þau ekki nú í því horfi, sem þau eru. Hann hefir brugðist stundum svo illa, þegar mest lá á í þeim málum, svo sem í fánamálinu, og í seinni tíð vill hann eiginlega kenna sjálfstæði þjóðarinnar um öll mistök, sem verða.

Í tilefni af ræðu hv. þm. (SSt) vil jeg spyrja, hvort hann trúi því sjálfur, að hann geti fengið nokkra með sjer til þess að auka veraldlegt vald biskups. Þjóðin er vissulega mótfallin því.

Vígslubiskupinn í Skálholtsbiskupsdæmi á að vera andlegur forstöðumaður kirkjunnar og stjórna synodus, samkv. fyrirligjandi frv. Það eru ekki launin, sem skapa köllunina, hún kemur og verður að koma innan frá, og biskup, án köllunar, er enginn biskup.

Engum mundi blæða í augum, þó manni eins og núverandi vígslubiskupi í Skálholtsbiskupsdæmi væri fengið í hendur forræði kirkjunnar. Það er margbúið að sanna, að veraldlega valdið eykur ekki veg embættisins.

Háttv. þm. (SSt) hefir áður verið fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Hvar er biskupsembættið þá komið? (SSt: Það er ekki víst, að það hyrfi). Það á ekki að hverfa eftir þessu frv. En ríkið launar hann ekki sjerstaklega.

Þá vjek háttv. þm. að öðru atriði, sem sje, að stjórnin hafi stofnað ýms ný og óþörf embætti, þar á meðal t. d. í sambandi við vinsölu ríkisins. Jeg neita því, að stjórnin hafi stofnað þar til embætta. Þingið samþykti lög um lyfjasölustjórann, og honum hefir verið falin forstaða vínverslunarinnar. Hann er nú raunar aðeins ráðinn til 3 ára, og 1 ár af þeim tíma er nú liðið, en engir aðrir í vínversluninni hjer í Reykjavík hafa fengið neinn samning, og má því segja þeim upp hvenær sem er.

Það er undarlegt að heyra háttv. þm. (SSt) tala þannig, að ríkið hafi tapað á versluninni. Má þó benda á, að það hefir grætt á fjórða hundrað þús. krónur á tollinum einum. Vinsalan hefir fáa menn í þjónustu sinni; 4 menn á skrifstofunni og 4 á „lager“. Mótmæli jeg því sem hreinum ósannindum, að stjórnin hafi stofnað ný eða óþörf embætti. Það er aðeins sprottið af tilhneigingu hv. þm. (SSt) til að gera hvell; annars mundi hann ekki tala með svo miklu orðagjálfri um þessi efni, og lítilsvirða sparnaðarfrumvörp stjórnarinnar, ef honum stæði eigi á sama um allan sparnað. Menn eru orðnir svo vanir stóryrðum af hálfu hv. þm. (SSt), að menn kippa sjer ekki upp við þau. Því hitt er alkunna, að hann brestur alt vit á fjármálum og skortir skilning á lögmálum sparnaðarins. (SSt: Hvað verður sparnaðurinn mikill?). Jeg geri ráð fyrir að þm. hafi lesið frumvörpin, og þar fær hann svarið.