16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal verða við ósk þeirri, er hv. þm. Ísaf. (JAJ) bar fram, að svo miklu leyti sem jeg get. Jeg ljet þess getið, að mjer væri kunnugt um, að nú væri að rýmkast um markað fyrir saltfisk suður í Miðjarðarhafslöndum. Það er rjett, þegar borið er saman við það, sem áður var. Hann er nú að verða kunnur þar, sem hann þektist ekki áður. Nýlega hafa verið sendir slattar, sumpart sem sýnishorn og sumpart eftir pöntun, til Egyptalands og Grikklands, þar sem íslenskur fiskur hefir að vísu verið seldur áður, en mjög lítið, og jeg veit, að tilraunir hafa verið gerðar um sendingar til Tyrklands og norður með Svartahafi, þótt enn sjeu þær á byrjunarskeiði. Þessar leiðir eru að smáopnast og víkka fiskmarkað vorn. Jeg hefi ekki leyfi til að skýra frá einstökum tilraunum, en þetta er mjer heimilt að segja. Ekki get jeg heldur sagt frá því, hverjir hafa þessar tilraunir með höndum. Þeir eyða fje og fyrirhöfn í tilraunirnar og það er eðlilegt, að þessir menn vilji ekki fá keppinauta sína of snemma í kapphlaup við sig.

Í tilefni af því, sem hæstv. forsrh. (SE) sagði, að hann vildi ekki bera ábyrgð á brtt. minni, ef hún yrði samþykt, skal jeg geta þess eins, að mjer finst hann ekki þurfa að taka neina ábyrgð á sig. Deildin tekur ábyrgðina á gerðum sínum, með því að samþykkja till. eða hafna henni. Annars yrði sú ábyrgð ekki háskaleg. Ef brtt. verður samþykt. yrðum vjer að leita til Spánverja á ný í árslok 1927 og spyrja þá, hvort þeir krefðust áfram, að vjer leyfðum innflutning vína í landið. En skilyrðum Spánverja er fullnægt, þegar bannlögin eru feld úr gildi í 4 ár, fyrst um sinn, að áskildu áfengismarki. Það var aldrei í skilyrðum þeirra, að þessi undanþága ætti að gilda eilíflega.

Þá vildi jeg athuga lítillega ræðu háttv. 2. þm. N.-M. (BH). Jeg vissi eiginlega ekki, hvaða erindi hann átti upp úr sæti sínu. Hann þóttist ætla að hjálpa háttv. frsm. (MJ), en sú hjálp kom að engu liði. Háttv. þm. var að þurka eitthvað framan úr sjer, en jeg skil ekki. hvað það var eða hvað æsti skap hans. Hann bar mjer það á brýn, að jeg hefði verið á móti þessu frv. í fyrra heima í hjeraði, og þó að lokum samþykt það. Þetta er að kasta kaldyrðum og sumpart ósönnum. Jeg mótmælti í fyrra öfgum í áliti meiri hluta viðskiftamálanefndar, og geri það enn, og jeg gerði ljósa grein fyrir atkvæði mínu um þetta í fyrra. Þessar slettur háttv. þingmanns eru því með öllu ástæðulausar. Bæði hefir hann og margir aðrir þingmenn þrásinnis orðið að sætta sig við úrslit mála önnur en þau, sem þeim þóttu æskilegust. Hver leggur það til málanna, sem hann hyggur rjettast, og verður þó oft að sætta sig við að vera borinn atkvæðum, jafnvel að styðja mál, þótt eigi hafi hann getað komið fram öllum sínum vilja. Veit jeg ekki, að slíkt hafi verið neinum til ámælis lagt, enda eru þessi önugyrði háttv. þm. fráleit firra, sem jeg skil ekki. Hvers vegna hann flaggar með.