26.02.1923
Neðri deild: 6. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í C-deild Alþingistíðinda. (2540)

15. mál, afnám biskupsembættisins

Magnús Jónsson:

Jeg hafði hugsað mjer að svara hæstv. forsrh. nokkrum orðum, en sleppi því að mestu, þó helst þessari nýju ástæðu, sem kom fram hjá honum síðast, er hann álítur, að gengi íslenskrar krónu muni hækka, ef þau embætti, sem stjórnin hefir lagt til að fella niður, og þar á meðal biskupsembættið, verði lögð niður. (Forsrh. SE:

Útúrsnúningur hjá guðsmanninum). Nei. (Forsrh. SE: Þetta hafa þeir til, kirkjunnar menn!). Já, það, að skilja og heyra rjett. (Forsrh. SE: Skal verða svarað).

Hæstv. forsrh. (SE) mintist á háskólann, sem væri nýstofnaður, og hvert ætti þá að höggva skarð í hann, og skal það játað, að slíkt væri miklu nær heldur en að afnema biskupsembættið á meðan þjóðkirkjan stendur.

Það hefir verið sagt, að kröfur nútímans heimtuðu ekki neitt biskupsembætti. En hvaða kröfur voru það áður, sem ekki eru nú, sem heimtuðu þetta?

Jeg sje í rauninni ekki eftir veraldlegu valdi biskupanna, þó það hafi reyndar oftast verið biskupsvaldið, sem best og mest stóð á móti yfirgangi erlenda valdsins hjer, því það er aðallega andlega valdið, sem biskupinn hefir og á að hafa. (Forsrh. SE: Er það vald til þess að hafa eftirlit með andatrúnni?). Það er heldur ekki rjett, að biskupinn sje nú að eins skrifstofumaður, og það er vissulega mikill misskilningur á tilgangi og eðli embættisins, ef menn halda, að meginstarf þess sje í því fólgið að fletta embættisbókum eða hlusta eftir því, hvort einhversstaðar sje ef til vill eitthvað sagt, sem einhver kallaði villukenningu. Hins vegar er það vitanlegt, að einhver skrifstofustörf þarf biskupinn óhjákvæmilega að hafa sjálfur hjá sjer, og sömuleiðis þarf stjórnarráðið altaf að hafa einhvern sjerfróðan ráðunaut um kirkjumál líka, þó biskupsembættið yrði afnumið, svo að sparnaðurinn eða breytingin til bóta yrði sáralítil, hvort sem litið er á skrifstofuhlið málsins, eins og hæstv. forsrh. (SE) gerði, eða hina. Og þær leiðbeiningar og upplýsingar, sem stjórnin óhjákvæmilega þarf að fá um kirkjumál, getur hún alls ekki fengið eins vel nje eins fljótt, ef dreifa á söfnun þeirra á alla prófasta landsins. Með því móti kemur þetta að miklu minna liði fyrir miðstöð kirkjumálastjórnarinnar en með því skipulagi, sem nú er, að þessu sje öllu safnað saman í hendur biskupsins, sem þar að auki er því öllu persónulega kunnugur af yfirreiðum sínum. En vísitasíurnar, sem stjórnin ætlar að ónýta, má einmitt allra síst leggja niður.

Hæstv. forsrh. (SE) hefir alhnikið talað um rjetta lærdóma og eins og verið að dylgja um það, að eitthvað meira en lítið mundi þar vera að þjóðkirkjunni og biskupsvaldinu nú. Er það hvorutveggja, að hjer er ekki rjettur staður fyrir slíkar umræður, og svo það, eins og jeg hefi áður bent á, alls ekkert aðalatriði í meðferð biskupsembættisins, að biskup sitji stöðugt með einhverjar „confessiones“ fyrir framan sig og beri þær saman við alt og alla, þó ef til vill megi teygja einhvern slíkan skilning út úr afgömlum erindisbrjefum. Nei, það er miklu meira um hitt vert, að prestar geti talað við biskupinn alment um áhugamál sín í kirkju og kristindómi, miklu meira komið undir slíkri andlegri forustu og leiðbeiningum heldur en því, sem hæstv. ráðherra (SE) er altaf að dylgja um.

Þá talaði hæstv. ráðherra (SE) mikið um það, að allur ljómi væri horfinn af biskupsembættinu. Ja — yfir hvaða embættum er eiginlega þessi „gloría“, sem hann er að tala um Eða hvar er t. d. ljóminn af ráðherrunum? Sannleikurinn er sá, að hugsunarháttur manna alment hefir breytst nokkuð í þessu sambandi, þannig, að menn líta nú yfirleitt nokkuð öðrum augum á embættismenn og embætti en áður. Með því er þó ekki sagt, að virðingin fyrir þeim í sjálfu sjer fari þverrandi. Um biskupsembættið má að minsta kosti segja það, að af vísitasiuferðunum er það nokkurn veginn augljóst, að ekkert embætti mun hjer njóta meiri virðingar en það.

Um undirbúning málsins hefi jeg ekki sagt annað en það, að mjer þætti óviðkunnanlegt, að málið skyldi ekki hafa verið borið undir biskup sjálfan til umsagnar; hann ætti þó að vera þessum hnútum kunnugastur.

Annars er það ánægjuleg stefnubreyting, sem virðist vera komin fram hjá hæstv. stjórn nú við umræðurnar, sem sje sú, að hún ætlist til þess í raun og veru að fjölga biskupsembættunum og hafa þau tvö, enda væri ekki nema gott, að hinir fornu biskupsstólar yrðu báðir endurreistir. En þó stjórnin meini þetta ef til vill ekki mjög alvarlega nú, má þó áreiðanlega gera ráð fyrir því, að með tímanum yrði sú niðurstaðan, ef þetta eina biskupsembætti yrði afnumið nú, að upp mundu rísa önnur tvö í staðinn. Og þessi embætti yrðu ekki eins og vígslubiskupsembættin nú, heldur fullkomin biskupsembætti. Í þessu sambandi vil jeg nota tækifærið til þess að leiðrjetta misskilning hæstv. forsrh. (SE) á ummælum mínum um þessi embætti og mismun þeirra. Eins og jeg tók reyndar fram áður, er munur þeirra einkum fólginn í því, að vígslubiskupsembættunum fylgir engin andleg forusta, og er ekki til þess ætlast. Með því er auðvitað ekki sagt, eins og hæstv. ráðh. (SE) þóttist halda, að verið sje að gera lítið úr vígslubiskupsembættunum, og þaðan af síður, að jeg hafi verið að vantreysta eða varpa rýrð á mennina, sem skipa þau. Það er öðru nær, og það, sem hæstv. ráðh. (SE) sagði um Valdimar Briem í þessu sambandi, er auðvitað alt saman rjett. En það kemur málinu bara ekkert við.

Loks skal jeg svo enn þá einu sinni minnast nokkrum orðum á sparnaðinn, sem af þessu á að verða. Ef það er nú rjett, sem stjórnin heldur nú fram, að vígslubiskuparnir eigi, sem andlegir forustumenn kirkjunnar, að koma alveg í stað biskupsins nú, er það bersýnilegt, að annaðhvort þurfa þeir að sitja á einhverjum slíkum stöðum, þar sem er menningarleg miðstöð, bæði innanlands og fyrir aðstreymi þeirra erlendu áhrifa, sem þeim eru nauðsynleg til þess að geta fylgst með í málum kirkjunnar, eða þá að þeir þurfa, ef þetta er ekki álitið nauðsynlegt, að fá allmikinn ferðakostnað til ýmsra slíkra ferðalaga um umdæmi sitt, ef þeir sitja ekki í nánd við einhverja slíka miðstöð, en eiga heima einhversstaðar út úr. En þá getur nú sparnaðurinn farið að minka, ef þannig á að greiða tveimur biskupum ýms slík aukagjöld árlega, eins og óumflýjanlegt verður.

Að endingu vil jeg minnast dálítið á ræðu hæstv. atvrh. (KIJ). Hann vitnaði mikið í sögu þessa máls hjer á þingi og þær raddir, sem áður hefðu komið hjer fram og æskt afnáms biskupsembættisins. En saga þessa máls á þingi sýnir einmitt ekki síður, hvernig þingið hefir hrundið af sjer þessum fáu og lágrödduðu óskum, og er því í raun og veru sönnun í þveröfuga átt við það, sem hæstv. ráðherra (KIJ) vildi vera láta. Alveg eins er með biskupana, sem hann nefndi. Það sannar ekkert um gildi biskuparaðanna, eða áhrif embættisins yfirleitt, þó hægt sje að benda á Jón Gerreksson eða Ólaf Rögnvaldsson, sem misbeitt hafi valdi sínu.

Sami hæstv. ráðh. (KIJ) var einnig að dylgja eitthvað með það, að andlega forustan, sem talað hefir verið um, væri eitthvað lítils virði hjá núverandi biskupi. Hann gerði ekki nánari grein fyrir þessu, enda getur alt af verið, eins og eðlilegt er, skoðanamunur um slík mál, en sennilega má þó skrifa þessi orð á sama reikninginn og ummæli blaðs eins hjer í bænum, sem hæstv. ráðherra er nákomið, og nú á síðkastið hefir verið að slást dálítið upp á biskupinn. En að vera með slíkar dylgjur úr ráðherrastóli álít jeg allsendis ósæmilegt. Þaðan ætti að mega vænta hreinna orða, með eða móti, en ekki neins, sem gefið er í skyn, án þess að vilja standa við það.