22.02.1923
Neðri deild: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í C-deild Alþingistíðinda. (2559)

22. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Það er eins um þetta frv og um hin fyrri, sem jeg hefi minst á, að óþarft er að fara hjer mörgum orðum um það. Jeg get að mestu látið mjer nægja að vísa til aths. við það.

Eins og menn vita, eru ýmsar vörutegundir þannig, að mjög erfitt er að tolla þær eftir þunga eingöngu. Má þar t. d. nefna silkivefnað og aðrar vörur, sem hafa mjög lítinn þunga móts við verðmæti. Illa viðeigandi er hins vegar oft og einatt að tolla vörur eftir verði eingöngu. Heppilegasta leiðin er því að nota báðar aðferðirnar jafnhliða, að minsta kosti á þeim vörum, sem í frv. ræðir um. Flokkunin er hjer tekin í heild, en þó gæti vel komið til mála að taka ýmsar vörur út úr flokkunum, til sjerstakrar meðferðar.

Jeg skal svo leyfa mjer að leggja það til, að málinu verði, að umr. lokinni, vísað til fjhn.