22.02.1923
Neðri deild: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í C-deild Alþingistíðinda. (2560)

22. mál, verðtollur

Magnús Guðmundsson:

Jeg get ekki neitað því, að mjer virðist undarlegt að ætla sjer að hafa tvennskonar aðflutningsgjald á sömu vöru. Jeg býst auk þess við, að það, að bæta verðtolli ofan á þungatollinn á sumum vörutegundum, myndi hafa talsverðan aukinn kostnað í för með sjer. Myndi það að minsta kosti kosta nýjan tollþjón hjer í Reykjavík og aukið umstang bæði hjer og annarsstaðar. Hinu væri jeg hlyntari, að vörutollurinn yrði hækkaður á þessum vörum, en verðtollinum þá slept. Býst jeg og við að hæstv. fjmrh. (MJ) geti ekki verið það neitt kappsmál, hvor leiðin er farin, því að fyrir honum hlýtur það að vera aðalatriðið, að fá tekjurnar í ríkissjóðinn.