24.04.1923
Efri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

97. mál, vaxtakjör

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Það eru aðeins fáein orð. Jeg hefi fátt að segja viðvíkjandi hæstv. atvrh. (KIJ). Það er sjálfsagt rjett hjá honum, að það hafi verið Páll Briem, sem samdi veðdeildarlög 1. veðdeildarflokksins. En mjer er kunnugt um, að prófessor Eiríkur Briem hjelt mikið upp á þessi lög. Þá vildi hann ekki fallast á, að meginstoðinni væri kipt undan þessu frv., er það næði ekki til Íslandsbanka, því að Íslandsbanki hefði svo lítið lánað til landbúnaðarins. Minni hlutinn meinti það nú ekki, heldur hitt, að úr því að frv. getur ekki náð til Íslandsbanka, en innifelur þó í sjer ákvæði um hann, þá getur það ekki gengið fram, því þá er það ekki löglegt. Þá gat hann þess, að hann vissi ekki hvort hefði verið reynt mikið fyrir stríð að selja veðdeildarbrjefin. Jú, það var reynt, en það, sem stóð á, var það, að ekki var hægt að selja nógu stóra slumpa í einu. Veðdeildarlögin eru þannig úr garði gerð, að ekki er hægt að selja brjefin fyr en búið er að lána út á þau og veð komið á móti.

Eins og jeg hefi sýnt fram á, þá er engin trygging fyrir því, að vextir verði lægri í þessum veðbanka. Það legst nýr kostnaður á, fleiri bankastjórar. Í Landsbankanum gátum við 2 bankastjórarnir komið af öllum störfum.

En jeg get vel verið með því, að málið verði tekið af dagskrá, umræðu frestað, og vísað aftur til nefndar, til nýrrar athugunar, í sambandi við brtt. hæstv. atvrh. (KIJ). Jeg vil gera alt, sem hægt er að gera fyrir landbúnaðinn. En vextirnir geta ekki orðið lægri, nema honum sje gefið rekstrarfje.

Þá kem jeg að hv. 5. landsk. þm. (JJ). Hann sagði, að vextirnir hlytu að fara eftir áhættunni. En hvernig stendur þá á því, að hv. þm. (JJ) hefir ekki sett það í frv. Hann talar þar ekkert um tryggingarnar. (JJ: Það er nóg, að hún er betri!). Það hefði átt að standa í frv. Jeg er samþykkur því, að það sje hættuminna að lána út á jarðir en út á nöfn manna. En það eru erfiðleikarnir að fá svo ódýra peninga.

Jeg skyldi ekki hv. 5. landsk. þm. (JJ), þegar hann var að tala um veðdeildina. Að það væri ekki hægt að borga með þeim lánum verslunarskuldir. Jeg skil það, að honum falli þetta illa, en það er alls ekki tilætlunin, heldur á að verja þessum lánum til ræktunar. Þá sagði sami háttv. þm., ,að sá, sem undirbjó lögin um ríkisveðbankann, hefði verið vitrari en jeg. Það má vel vera. En hann hefir þó aðeins fræðilega þekkingu, en ekki reynsluþekkingu eins og jeg. Þá var hv. þm. (JJ) á móti því að koma hjer á stofn „Kreditforeninger“. Hann sagði, að það gæti gengið í Danmörku, þar sem svo þjettbýlt væri, að menn þektu hver annars hag. Þetta eru eftirtektarverð ummæli frá hans vörum. Hann hefir þó ekki haldið þessu fram í viðskiftamálunum. Þar hefir allsherjarsamábyrgð verið tekin góð og gild.

Háttv. þm. (JJ) spurði, hvað bændur í Skagafirði þektu til hags bænda í Skaftafellssýslum. En jeg spyr: Hvað þekkja menn á Langanesi til í Skaftafellssýslum, þegar um samábyrgð kaupfjelaganna er að ræða? En þar vill hann þó hafa samábyrgð. Hann talaði um, að hver sýsla ætti að vera í samábyrgð, og hver með sín verðbrjef. Þetta er sama og jeg vil með kaupfjelögin. En þetta er þó heilaspuni hjá háttv. þm. Það má eins stofna til einnar „Kreditforening“ fyrir alt landið. Áhættan er svo lítil, vegna hins opinbera mats á jörðunum. Það hefir þegar verið mynduð slík „Kreditforening“, eða í þá átt, hjer á landi, þar sem stofnun 4. veðdeildar er. Þar standa veðin öll í samábyrgð fyrir 10% af öllum lánunum. Þar er því skapaður vísir fyrir lánsfjelög. Þar næst er varasjóður til tryggingar, og loks ríkissjóður að baki. Það vantar því ekki nema herslumuninn til þess, að 4. veðdeild sje „Kreditforening“, aðeins, að sameiginlega ábyrgðin væri 20% í stað í 10%. Háttv. þm. (JJ) segir þetta, af því hann þekkir það ekki. Það sjest, þegar á reynir. En þeir tímar geta komið, að hann skilji þetta betur. Og því lengur sem hann situr á þingi, því meira styttast hornin á honum.