24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í C-deild Alþingistíðinda. (2619)

67. mál, mannanöfn

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg veit, að háttv. þm. muni hafa sjeð niðurlagið á þessari stuttu greinargerð minni fyrir frv., sem gerir grein fyrir því á þann veg, að það sje einskonar fyrirspurn til Alþingis, hvort það viti nokkurn annan skyldari til að vernda dýrustu eign þessarar þjóðar en sjálft sig. Jeg get ekki annað nú en staðið upp, til þess í sambandi við þetta niðurlag greinargerðarinnar að þakka háttv. þdm. fyrir góðar undirtektir við frv. Vonast jeg til þess, að framhald verði á því, svo að það ásannist nú, eins og svo oft áður, að háttv. þm. kenna nú, þegar kemur að hjörtum þeirra, eins og valurinn. Þótt sundurleitar skoðanir og flokkarígur vefji oft málin þoku og villi mönnum sýn, þá hefir Alþingi þó oftast borið gæfu til að þyrla burt þokunni, er um þýðingarmikil þjóðernismál var að ræða.