24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í C-deild Alþingistíðinda. (2621)

67. mál, mannanöfn

Jakob Möller:

Jeg greiði atkv. á móti þessu frv., af þeirri sök, að jeg álít það ganga svo nærri persónulegum rjetti manna, að með öllu sje óverjandi. Jeg tel það hart, ef menn hyggjast með lögum að banna mönnum, sem borið hafa ættarnafn áratugum saman, ættarnafn, sem hefir gengið að erfðum lið fram af lið, að banna þeim, eða rjettara sagt að neyða þá fyrir hönd barna sinna og ættar að leggja það niður. Háttv. flm. (BJ) ætti þó að vera það kunnugt, að gömul ættarnöfn eru mörgum mönnum sem helgur dómur og þeim mjög kær. Getur hann þá varla í alvöru borið mönnum á brýn skort á þjóðernisrækt, þótt þeir sjeu ófúsir að fleygja burt þessum sameiginlega kjörgrip ættar sinnar. Mun hann ekki með slíkum gífuryrðum fá mig til að greiða þessu frv. atkv. mitt, og vænti jeg að svo fari um fleiri.