24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í C-deild Alþingistíðinda. (2625)

67. mál, mannanöfn

Eiríkur Einarsson:

Mjer þykir leiðinlegt, að jafngott mál og lagfæring á nafnalöggjöfinni skuli vera rætt hjer í hv. deild af svo miklu kappi og jafnvel svo einhliða, að við óefni er búið. Finst mjer annars vegar hv. flm. (BJ) fara nokkuð geist í sakirnar, og á hinn bóginn aðrir óþarflega kvikusárir, er rætt er um takmarkanir á ættarnafnafarganinu. Jeg skil vel afstöðu hv. 1. þm. Reykv. (JakM) og er honum samdóma um það, að gerræði sje að svifta börn gömlum ættarnöfnum feðra sinna. Við sum þeirra er eigi aðeins bundin ættartrygð, heldur og þjóðartrygð. Eru mörg þessi gömlu ættarnöfn orðin svo samgróin málinu, að lítið mun saka, þótt þau haldist áfram. Hins vegar tel jeg frv. mjög þarft, að því leyti, er það kemur í veg fyrir þetta nýja ættarnafnafargan, sem er nú að leggjast á þjóðina. Eru mörg þau nöfn eigi merkilegri en svo, að lítill skaði er í, þótt sjeu lögð niður. Vilji nú samt einhver fyrir hvern mun halda þessu nýja nafni handa ætt sinni, finst mjer, að komið gæti til greina að gerbanna ekki hin nýju ættarnöfn, en afla þá ríkissjóði álitlegs tekjuliðs, sem tolls af svo óþörfum varningi. Í þannig löguðum háum viðurlögum væri og góð vernd fólgin.

Þá finst mjer sektarákvæðin nokkuð há og koma ekki allskostar rjett niður. Álít jeg mentun manna ekki á svo háu stigi alment, að hægt sje að ætlast til að foreldrum geti ekki skotist í þessu efni. Finst mjer, að rjett væri að leggja aðaláhersluna á, að prestarnir sjái um að lögunum sje hlýtt, og skíri aðeins skammlausum nöfnum, og megi þá taka ráðin af mjög smekklausum foreldrum. Þeir eiga að hafa nægilega mentun til þess, að hægt sje að gera þessa kröfu til þeirra.

Eins er um bæjanöfnin. Jeg tel viðsjárvert að breyta gömlum heitum; af því hlýst aðeins ruglingur og smekkleysur einar. Er því síst úr vegi að herða þar ákvæðin.

Jeg er því annars hlyntur, að málið gangi til 3. umr., og vil jeg taka höndum saman við þá hv. þm., sem vilja milda frv., líkt og jeg hefi drepið á, og koma með brtt. Hins vegar er jeg hræddur um, að það kynni að daga uppi, ef því væri vísað til nefndar, og tel því best að afgreiða það nefndarlaust. Yrði því á hinn bóginn vís, að til nefndar, tel jeg eðlilegast að mentmn. fjalli um það.