24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í C-deild Alþingistíðinda. (2626)

67. mál, mannanöfn

Jón Þorláksson:

Jeg leit svo á, er þessu máli var með öllum greiddum atkvæðum vísað til 2. umr., að það væri gert í virðingarskyni við hv. flm. (BJ) og þakkarskyni fyrir þá snjöllu ræðu, sem hann flutti. Hitt efast jeg um, að nokkrum hv. þm. hafi komið til hugar, að það næði fram að ganga svona, eins og það er nú. Og jeg skal nú játa, að jeg gerði það að till. minni, því yrði vísað til hv. mentmn., einungis í því skyni, að það fengi að sofna á viðeigandi hátt. Nú hefir háttv. flm. (BJ) ekki viljað þiggja þessa sæmd, og er þá ekki annað fyrir en að taka upp umr. um málið.

Jeg lít þá svo á, að þetta frv. sje ein fjarstæða frá upphafi til enda, af því, að það gengur alt of nærri persónulegum rjettindum manna og setur ákvæði um það, sem einstaklingurinn á sjálfur að ráða yfir eða foreldrar fyrir börn sín. Háttv. flm. (BJ) er ekki svo skyni skroppinn, að hann viti ekki, að menning einnar þjóðar er hvorki meiri nje minni, þó að hún fái að sýna sig eins og hún er, t. d. eins og hún kemur í ljós í meðferð nafna. Menningin er í eðli sínu hin sama, þó að hún komi þannig fram. Frv., sem menningarmeðal, nær ekki tilgangi sínum. Ef menningin kemur fram í slæmri óvenju eða tísku, þá verður að berjast á móti henni og breyta henni með öðru en þvingunarmeðulum. Eins og t. d. að hjer er farið fram á að banna mönnum að gefa börnum sínum fleira en eitt nafn.

Þetta er nú það, sem segja má um frv. alment, sein snertir fyrst og fremst það menningarlega, og í öðru lagi skerðing á persónufrelsi manna og gömlum siðum.

Þá kemur fram í 3. gr. frv. ákvæði, sem særir velsæmistilfinningu manna. Það særir tilfinningu allra óspiltra manna að banna mönnum með lögum að bera þau nöfn, sem börn hafa hlotið í heilagri skírn.

Jeg læt ekki fleiri orð falla um frv. að sinni; en vilji hv. flm. (BJ) ekki þiggja, að því verði vísað til mentmn., sem er sæmileg meðferð, þá get jeg með atkv. mínu stuðlað að því, að það verði felt nú þegar.