21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (SE):

Jeg get þakkað hv. nefnd fyrir það, hversu vel hún hefir tekið þessu máli og afgreitt það fljótt.

Háttv. frsm. (SHK) spurði, hvort krafa hefði komið frá Spánverjum um að hafa hjer opinbera vínsölustaði. En um það var engin krafa frá þeim. Eins og jeg skýrði frá í hv. Nd., þá fór jeg til Kaupmannahafnar eftir þing í fyrra, og þar var núgildandi reglugerð samin í samráði við formann samninganefndarinnar, sem fór til Spánar. En annar maður, sem í nefndinni var, rithöfundur Einar Hjörleifsson Kvaran, var ekki kominn heim, er jeg fór til Hafnar, en Gunnar Egilson stjórnarerindreki var þá á Spáni.

Öll okkar viðleitni fór í þá átt, eins og sjálfsagt var, að halda í öllum greinum samningana við Spánverja og gera ekkert, sem á nokkurn hátt gæti lokað Spánarmarkaðinum, en jafnframt vildum við, eftir því sem unt var, gera þær ráðstafanir, sem heimilaðar voru til þess að sporna við óhappaafleiðingum vínnautnarinnar.

Jeg vildi ekki spyrja Spánverja um, hvað setja ætti í reglugerðina; það hefði getað orðið til þess, að byrja hefði þurft á nýjum samningum, og auk þess er það óviðkunnanlegt að spyrja erlenda þjóð ráða um innri málefni, svo sem þetta var.

Jeg áleit líka best að hafa sölustaðina sem fæsta, en þótti þó ekki rjett að ganga skemmra í því efni en tekið er fram í reglugerðinni.