09.03.1923
Neðri deild: 16. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í C-deild Alþingistíðinda. (2646)

47. mál, stofnun sjóðs til eflingar bindindisstarfsemi

Jón Baldvinsson:

Jeg sje, að hv. þm. eru farnir að renna hýru auga til ágóða þess, sem væntanlegur er af sölu spönsku vínanna. Eru nú þegar komin fram tvö frv., sitt í hvorri deild, sem fjalla um ráðstöfun á fje þessu. Jeg er sammála hv. flm. frv. hjer í deildinni (MJ), að haganlegast sje að verja fjenu á einhvern þann hátt, sem hvorki ríkissjóði nje einstaklingum yrði tilfinnanlegt, þótt tekjustofninn fjelli burtu. En jeg tel vafa á því, að þeim tilgangi verði náð með þessu frv.

Flestir þeir, sem barist hafa fyrir bindindisstarfsemi hjer á landi, hafa eigi gert það í atvinnuskyni, heldur hafa það verið áhugamenn, sem í alveg óeigingjörnum tilgangi hafa barist fyrir góðri hugsjón, og gleðin yfir því að hafa sjeð árangur af starfsemi sinni, hafa alt af verið einu launin.

Eftir minni skoðun gæti frv. gert breytingu á. þessu fyrirkomulagi, og það á þann hátt, að til ógagns gæti orðið allri bindindisstarfsemi. Ef gert er ráð fyrir hálfrar miljón króna tekjum af vínsölu, þá mætti kosta af því 100 regluboða með 5000 króna launum hvern, og gæti þá farið svo, að í þær stöður veldust menn, sem gengjust fyrir hinu launaða starfi, aðeins vegna peninganna, sem þeir fengju í aðra hönd, en ekki af áhuga fyrir bindindis eða bannhugsjóninni. Eins mætti búast við, að þeim, sem komnir væru á þetta fasta eldi, yrði óljúft að missa af því aftur og að starfsemi þeirra í þágu reglunnar færi þá eftir því, þ. e. sumir þessara manna — heiðarlegar undantekningar yrðu að sjálfsögðu — gætu orðið þrándur í götu þess, að bannið kæmist á aftur. Eins mætti misnota fjeð á pólitískan hátt, því að sjálfsagt mætti stofna laglegan kosningasjóð af því, ef ríkisstjórnin og bindindisforkólfarnir yrðu sammála um það. Frv. þetta fer því í öfuga átt við það, sem fyrir hv. flm. þess vakir.

Mitt álit er það, að heppilegast væri að verja fjenu árlega í einhverjar þarfar, verklegar framkvæmdir, sem ekki tækju það langan tíma, að fella mætti burt þennan tekjustofn, án þess að nokkur, hvorki ríkissjóður nje einstaklingar, væru orðnir svo samgrónir fjenu, að brottfallið snerti hagsmuni þeirra verulega. Og jeg álít, að ekki beri að setja ótal vígi í kringum lögin, svo sem frv. gengur út á.

Ef þing og stjórn vill á annað borð styrkja bindindisstarfsemina, þá væri miklu hagfeldara að lögbjóða í skólum fræðslu um skaðsemi áfengra drykkja. Yrði það ríkinu kostnaðarlítið.

Að endingu læt jeg þá ósk mína í ljós, að hv. deild samþykki ekkert frv., sem gengur út á það að festa fjeð við atvinnuvegi, stofnanir eða annað, sem síðar gæti staðið í vegi fyrir því, að aðflutningsbannið komist á aftur.