08.03.1923
Neðri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í C-deild Alþingistíðinda. (2652)

48. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Hákon Kristófersson:

Jeg stend ekki upp til að mótmæla þessu frv. sjerstaklega, heldur til að andæfa þeirri viðleitni, sem er að mjaka sjer inn í löggjöf vora á þessu sviði; þeirri viðleitni, að sjálfsagt sje að taka aukaútsvar af hverjum manni, þar sem hann rekur einhverja atvinnu, og það þótt um mjög skamman tíma sje að ræða. Jeg verð að líta svo á, að gæta verði meðalhófs jafnt á þessu sviði sem öðrum, því bæði getur það verið mjög vafningasamt að hafa hendur í hári manna, sem í rauninni bara koma, og fara, enda getur og slík álagning komið ranglátlega niður, ef strangt er farið í sakirnar.

Háttv. flm. (StSt) fórust svo orð sem atvinnurekendur á Siglufirði fyndu þar jafnan fyrir gull og græna skóga. Jeg vildi þá gjarnan mega spyrja hv. þm. (StSt), hve þeir muni vera margir, sem einungis hafa sótt tap og eignamissi til Siglufjarðar. Þess ber og að gæta, að þótt margur, sem atvinnu rekur á Siglufirði um sumartímann, sleppi við að greiða þar aukaútsvar eftir núgildandi lögum, þá græðir bæjarfjelagið á veru þeirra engu að siður, þar sem eru hin margvíslegu viðskifti, sem þeir eiga við það. Enda munu þeir verða að borga fullu verði alt það, sem þeir, nauðsynja sinna vegna, verða að fá hjá bæjarbúum. Vera mörg hundruð aðkomumanna á Siglufirði hlýtur að auka verslun bæjarins að miklum mun, og er það þá sú verslunaraukning, meðal margs annars, er gerir gjaldþol bæjarbúa mun betra, og má því segja, að sömu menn greiði þar útsvör, þó óbeinlínis sje.

Jeg held yfirleitt, að nú sje svo langt komið í þessu efni, að rjett sje að segja nú: hingað, en ekki lengra. Það ætti og að koma að mestu í sama stað niður, hvort útsvarið er tekið í þessum staðnum eða hinum. Aðalatriðið er, að það komi einhversstaðar í þarfir landsins og sveitarfjelaganna.

Að því er snertir hin tvö atriðin, sem háttv. flm. tók fram í ræðu sinni, þá er alt öðru máli að gegna um þau. Þar er jeg fyllilega samþ. háttv. flm., en í þessu vil jeg bara ekki að farið sje feti lengra en núgildandi lög mæla fyrir. Því setjum nú svo, að ástæða gæti verið til frábrigða í þessum eina stað. En myndu þá ekki aðrir bæir og sveitarfjelög koma í kjölfarið og krefjast sama rjettar, og vitanlega hafa sama rjett til sinna óska og Siglufjörður.

Þar sem jeg annars hefi oft áður tekið fram skoðun mína í þessu efni, tel jeg ekki ástæðu til að fara lengra út í það að sinni, en vænti þess, að háttv. deild athugi vel málið áður en hún gengur lengra inn á þessa braut en komið er.