08.03.1923
Neðri deild: 15. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í C-deild Alþingistíðinda. (2654)

48. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Að því er snertir ræðu háttv. þm. Barð. (HK) þá skal jeg aðeins taka það fram, að hjer er ekki um neitt spánýtt að ræða, því í okkar sveitarstjórnarlögum hefir ákvæðið um 4 vikna dvöl til útsvarsskyldu staðið um langa tíð og verður það sjálfsagt framvegis. Það verður því ekki sjeð, að neitt hættulegt spor sje stigið, þótt ákvæðið sje gert lítið eitt víðtækara að því er snertir þennan kaupstað, sem óneitanlega stendur svo öldungis sjerstaklega á með.

Jeg vil svo tjá hæstv. atvrh. (KIJ) þakkir fyrir góðar undirtektir hans í málinu, en bending hans um það, að frv. máske gangi of nærri rjettindum manna samkvæmt stjórnarskránni, hygg jeg ekki sje að óttast. Tel jeg svo enga ástæðu til að lengja umr. frekar, en vil fela nefndinni að athuga bæði þetta ákvæði og svo annað, eftir því sem þörf krefur.