21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (SE):

Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) spurðist fyrir um það, hvers vegna þetta mál hefði ekki verið borið undir þjóðaratkvæði. En háttv þm. veit vel, að Alþingi skildi svo við málið, að það ætlaðist ekki til, að það væri borið undir þjóðaratkvæði.

Stjórnin hafði því enga heimild til að gera þetta. Enda ef til vill nokkuð hæpið að láta þjóðaratkvæði ráða úrslitum í jafnmiklu tilfinningamáli og þessu, þar sem fjárhagur þjóðarinnar var í voða, ef með æsingum hefði tekist að koma málinu í strand. Og hver veit, hvað hefði mátt gera í því efni?

Ef aftur á móti þjóðaratkvæði hefði farið fram, sem ekki hefði verið úrslitaatkvæði, þannig, að Alþingi hefði haft seinasta orðið í málinu, en þjóðaratkvæðið hefði aðeins verið einskonar tillaga þjóðarinnar, þá verð jeg að líta svo á, að jeg samkvæmt stjórnarskránni hefði getað greitt atkvæði öðruvísi en þjóðaratkvæðið, og mundi hafa gert það, ef jeg hefði ekki verið sammála því.

Þá spurði háttv. 5. landsk. þm. (JJ). hvað hefði gerst á árinu í þessu máli. Háttv. þm. veit, að ekkert hefir gerst í því annað en það, að maður var sendur til Suður-Ameríku til þess að athuga markaðshorfur fyrir saltfisk þar. Hefir nú verið birt skýrsla frá honum, og það var rjett hjá háttv. þm., að rjett hefði verið að birta hana fyr. Skýrsla þessi bendir ekkert í þá átt, að saltfiskmarkaðurinn á Spáni sje ekki nauðsynlegur fyrir okkur. Og reynsla Norðurlanda bendir ótvírætt í þá átt, að við fórum rjett að í máli þessu, þar sem fram hefir komið í Stórþinginu norska frv. um að gera samskonar undanþágu frá bannlögunum og hjer hefir verið gerð. Og meira að segja hringdi einn ræðismaður til mín áðan og sagði, að búið væri að samþykkja svona lög í Noregi. Jeg skal vitanlega taka það fram, að þetta var ekki ræðismaður Norðmanna. (Atvrh. KIJ: Þetta stóð í Morgunblaðinu í morgun. Það hafa þá fleiri fengið skeyti um það. Sýnir þetta því ljóslega, að ekki hefði þýtt fyrir okkur að fara að taka upp nýja samninga við Spánverja, þegar Norðmenn hafa orðið að láta undan síga, eftir alla þeirra baráttu.

Þá spurði háttv. 5. landsk. þm. (JJ). hvort það hefði verið krafa Spánverja, að allir ættu að vera með frumvarpi þessu. Þessu er vitanlega slegið fram af háttv. þm. til þess að vera fyndinn, og þarf þar engu um að svara.

Háttv. þm. er alls ekki í samræmi í þessu máli við flokk þann, sem hann tilheyrir, og er jeg viss um, að hjer er jeg sem oftar í meira samræmi við hann heldur en þingmaðurinn.

Þá var það eitt, sem háttv. þm. sagði, að bæjarstjórnir hefðu mótmælt útsölustöðum, en stjórnin hefði ekkert tekið það til greina. Hvernig átti stjórnin að taka þau mótmæli til greina, þar sem þau voru í beinu stríði við þá reglugerð, sem stjórnin taldi nauðsynlegt að setja? Úr því að Alþingi vildi taka á sig hina þungu fórn í þessu máli, þá gat ekki komið til mála að láta bæjarstjórnir víðsvegar um land koma í veg fyrir það gagn, sem átti að verða af fórninni.

Jeg þykist hafa sýnt það, að jeg hafi verið fult eins góður bannmaður eins og hver annar, og hefi jeg þó ekki treyst mjer til að vera á móti þessari undanþágu. En eftir að jeg var kominn að þessari niðurstöðu, þá kærði jeg mig ekki um að viðhafa neinn kisuþvott, þó sumir þurfi þess til þess að róa samviskuna.

Hefði nú niðurstaðan orðið sú, að fiskmarkaðinum hefði verið lokað vegna bannlaganna, þá hefði jeg ekki lagt mikið upp úr þeim á eftir. Jeg hygg, að örbyrgðin og vesaldómurinn, sem af því hefði leitt, hefðu orðið svo mikið rothögg á bannmálið, að eftir það hefði það átt sjer lítillar viðreisnar von.

Annars tel jeg, að umræður um þetta mál nú sjeu með öllu þýðingarlausar.