27.04.1923
Efri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í C-deild Alþingistíðinda. (2725)

150. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Jeg þarf ekki að orðlengja um frv. þetta og get aðeins vísað í greinargerðina fyrir því, þar sem alt er tekið fram, er máli skiftir. Jeg hefði kosið að kynna mjer nánar fjárhag og eignir ellistyrktarsjóðanna, eins og nú er, en ekki tekist, sakir tímaskorts, og ekki getað fengið þær upplýsingar, er jeg þurfti. það lítur svo út sem próf. Eiríkur Briem hafi kynt sjer þetta mjög nákvæmlega, en sá galli er á, að menn eiga erfitt með að sjá, hversu mikið gagn yrði að þessari hækkun nú sem stendur, þar sem jeg get ekki lagt fram skilríki fyrir styrkveitingum úr sjóðnum nú. Jeg þekki til í einum hreppi, þar sem ellistyrkur nemur nú einu ómagaframfæri, en eftir útreikningum prófessorsins mundi það að 40 árum liðnum svara framfæri 3 ómaga. Jeg hefði haft tilhneigingu til að ganga lengra og hækka gjaldið meira, en vildi þó ekki gera það. Hvort sem sjóðurinn væri aukinn með hærri gjöldum eða gripið til annara úrræða til þess að auka hann, þá tel jeg það ekki illa farið. Vona jeg svo, þar sem allir sjá, hversu gætilega er af stað farið, að deildin samþykki frv. eins og það liggur nú fyrir.