12.03.1923
Neðri deild: 18. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í C-deild Alþingistíðinda. (2735)

64. mál, kosningar fyrir Reykjavík

Flm. (Jakob Möller):

Um frv. þetta er eigi annað að segja en stendur í greinargerðinni, og vona jeg að háttv. þm. hafi nú þegar kynt sjer það. Í því eru þó tvö nýmæli, er jeg vil sjerstaklega benda háttv. þm. á. Annað nýmælið er það, að ýmsum mönnum, er af sjerstökum orsökum hafa orðið að njóta sveitarstyrks, er nú veittur rjettur til bæjarstjórnarkosningar hjer og annara kosninga í þarfir bæjarins. Í öðru lagi er fjarstöddum kjósendum á kjördegi nú veittur kostur á að kjósa á sama hátt og gildir um alþingiskosningar.

Jeg vona, að nefnd sú, er frv. þetta gengur til, athugi, hvort ákvæði frv. um að nota gildandi kjörskrá til alþingis, ásamt viðaukakjörskrá, yfir aðra, er rjett hafa til bæjarkosninga, en ekki eru alþingiskjósendur, muni eigi geta komið að fullum notum. Fer jeg svo eigi frekar út í einstök atriði, en óska eftir, að frv. verði vísað til 2. umr. og til allshn.