10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í C-deild Alþingistíðinda. (2740)

49. mál, sala og veitingar vína

Jón Baldvinsson:

það eru sumir menn þeirrar skoðunar, að gömlu lögin um sölu og veitingar vína innanlands sjeu enn í gildi. En jeg skal þó ekki mæla á móti því, að einstök atriði gömlu laganna verði tekin upp aftur. En þó eru ýmisleg ákvæði í þessu frv. athugaverð og sem jeg get ekki fallist á, svo sem að leyfa vínsölu á skipum o. fl., en sem jeg ætla þó ekki að gera að umræðuefni nú. Það er eitt atriði í greinargerð frv., sem kom mjer til að taka til máls, þar sem það er sagt, að dýrara verði að ríkið hafi smásöluna á hendi heldur en hún verði í höndum einstaklinga o. s. frv. Það er stöðugt verið að stagast á því, að ríkissalan sje dýrari í rekstri en rekstur einstaklinga, og vil jeg ekki láta þessu ómótmælt. Jeg vonast til að þetta, sem hv. flm. frv. (MJ) talaði um, að ríkistrekstur sje ávalt þunglamalegt bákn, eigi ekki við flm. (MJ), en hann er sjálfur lifandi ríkisfyrirtæki, sem embættismaður ríkisins. Vitanlega má ýmislegt finna að rekstri ríkisfyrirtækja, einkum í byrjun. En jeg spyr: Eru ekki misfellur í rekstri fyrirtækja einstakra manna. Jeg fullyrði, að miklu meiri misfellur eigi sjer stað þar heldur en hjá opinberum fyrirtækjum, og þau mundu áreiðanlega græða á þeim samanburði. Það var algerður óþarfi af hv. flm. (MJ) að koma fram með þessar aðfinslur í greinargerð þessa frv. og í ræðu sinni, og jeg vil ekki láta því ómótmælt.